Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
26.1.2009 | 11:44
Loksins, loksins
Jæja loksins kemur hér ein færsla, einmana og lítil. Öll þörf til tjáskipta á þessum miðli hefur færst yfir í notkun á fésbókinni sem ég ætlaði sko aldeilis ekki að leggja lag mitt við. Það virðast einfaldlega langflestir vera komnir þangað inn, nema konan mín sem enn þrjóskast við - þó svo að hún sé núna farin að kíkja yfir öxlina á mér þegar ég vafra um á bókinni (í brókinni einni fata).
Lífið gengur sinn vanagang. Danska fósturbarnið þýðist okkur alltaf betur og betur og potturinn er notaður óspart, enda einmuna veðurblíða hér alla daga.
Skruppum norður á Melstað sl. laugardag til að vera við útför Frigga á Ósi. Erfið stund en falleg. Hittum fullt af góðu fólki þó svo að aðrir hafi verið með hundshaus og helst litið undan. Þeirra samviska er þeirra vandamál.
Sjáumst á fésinu.
11.1.2009 | 22:47
Í fréttum er þetta helst...
Í fréttum er ekki neitt sérstakt, nema ef vera skyldi að góð helgi er nú að lokum komin. Þessa helgina höfum við farið 3 ferðir í bæinn í ýmsum erindagjörðum. Engu að síður höfum við slappað af og notið þess að vera innan um vini og vandamenn. Kveiktum svo bara upp í arninum og nutum loganna sem loguðu fyrst glatt en eins og helgin sjálf þá smám saman minnkuðu þeir og þurru að lokum. Núna eru aðeins smá glæður eftir.
Potturinn var svo brúkaður af gamla settinu og lillanum. Aðrir voru ýmist í bíó eða farnir að sofa eftir skemmtanahald helgarinnar
Ný vika í vændum með verkstæðisferðum og skólasetu ýmiss konar!
7.1.2009 | 23:28
Af göngugörpum og pottverjum.
Af göngugörpum og pottverjum er það helst að frétta að við stundum hvort tveggja stíft. Við IP örkum daglega, oftast inn á Fitjar og stundum um nýja hverfið í Grænásbrekkunni sem ÞG langar svo að búa í.
Svo er gjarnan feðgastund í pottinum með yngri deildinni en sá elsti hefur ekki enn fundið hjá sér þörf til að baðast í fjölmenni, utanhúss þar að auki.
Veðrið er bara svo milt og gott að það væri synd að nýta það ekki til útivistar og heilsuræktar um leið og danska fósturbarnið er alið upp
4.1.2009 | 23:57
"Það er ekkert svo slæmt að maður komist ekki yfir það"
Í dag skruppum við í bæinn í heimsókn og útréttingar. Ekki að spyrja að því að verslanamiðstöðvarnar voru yfirfullar af fólki sem varð til þess að eitthvað varð lítið af innkaupum hjá hinum fjórum fræknu sem ætluðu að eyða inneignarnótum og gjafakortum.
Hins vegar hittist svo skemmtilega á að við hittum fólk sem við höfum ætlað að heimsækja lengi en ekki komið í verk. Í Kringlunni hittum við Auróru og Bjarna, Vestmannaeyinga sem núna búa undir Esjuhlíðum á Kjalarnesi og una hag sínum vel þar. Auróra mælti þessu spöku orð sem eru titillinn að þessu bloggi. Hún og Bjarni hafa nú lent í ýmsu um ævina eins og eldgosi, misst son og sitthvað fleira. Hins vegar er það hverjum manni hollt að hitta svona fólk sem lítur tilveruna svo réttum og björtum augum að maður skammast sín fyrir neikvæðar hugsanir og þunglyndi hvers konar. Ég ætla að gera þessi orð vinkonu minnar að mínum á árinu 2009 og hvet fleiri til að taka það upp með mér "Það er ekkert svo slæmt að maður komist ekki yfir það". Af þessu tilefni vil ég nefna að mér finnst frábært atriðið úr áramótaskaupinu sem Ilmur lék í bankanum þegar hún vildi fá að vita stöðu sína í bankanum. Hún sneri út úr öllu neikvæðu rausi bankamannsins með því að líta á þetta allt sem eitt allsherjar ævintýri. Ingunn mín klikkti svo út með því að segja að ævintýrin enduðu alltaf vel og þá er bara að vera svolítil Pollýanna i þessu öllu saman og trúa því og reikna með að þetta fari allt vel þó svo að það líti ekki út fyrir það í augnablikinu.
Í Smáralindinni hittum við svo Þórunni Bjargshólsmær ásamt Halldóri sínum og dóttur sinni Sigrúnu Helgu sem við höfum skammast okkar fyrir að vera ekki búin að kíkja á (höfum samt gert tvær misheppnaðar tilraunir). Stúlkan er náttúrulega hin bráðmyndarlegasta eins og hún á kyn til og amma Sigrún getur verið hin montnasta af nöfnu sinni.
Það var alveg óvænt ánægja að hitta þessar vini okkar og bætir örlítið samviskuna gagnvart heimsóknarleysinu.
4.1.2009 | 00:38
Four Weddings and a Funeral
Sit með fartölvuna uppi í rúmi og er að klára að horfa á ofannefnda mynd líkt og ég geri á hverjum jólum. Mér finnst húmorinn alveg óborganlegur og Grantarinn fer á kostum sem hvorki fyrr né síðar. Svo taka við hinar bráðfyndnu myndir um Bridget Jones og þá fer að vera fátt um fína drætti í DVD hillum fjölskyldunnar að mínu mat.
Af þessu glápi loknu fer sá gamli að verða tilbúinn í að ljúka jólafríinu með pompi og prakt og takast á við blessuð börnin.
Fórum í pottinn í dag og sátum þar og svömluðum allt of lengi. Svo lengi að ég varð að taka verulega á til þess að koma hjartslættinum í samt lag aftur og varð smá hræddur um að ég myndi bara hrynja niður á pallinn en að sjálfsögðu hrökk pumpan upp á gamalt lag og þá varð allt gott aftur eins og í góðum ævintýrum.
Köttur úti í mýri....
3.1.2009 | 08:29
...og lífið fellur aftur í sinn vanagang...
Sem betur fer er lífið aftur að rata í sinn vangagang eftir ótæpilegt hömluleysi svefns og afslöppunar í jólafríinu. Ný verkefni taka við og spennandi tímar í vændum á mörgum sviðum. Áhrif efnahagsástandsins skekja þó ýmsa fjölskyldumeðlimi og á nýársdag komu tengdó ásamt fleiri íbúum F7 og færðu okkur skelfileg tíðindi á þessum vettvangi. Við vonum bara og trúum að "fátt sé svo með öllu illt að ei boði gott".
Annars voru áramótin og það sem á eftir kom bara í alla staði frábær. Maður þarf nú sennilega að venjast hávaðamenguninni um miðnætti áramótanna því mér leið eins og ég væri staddur í loftárás á vígvelli einhvers staðar í austrinu. Við skunduðum í bæinn í gær til að skipta jólagjöfum sem við gáfum strákunum því þær þóttu ekki passandi og nýttum ferðina líka í heimsókn til E & E á R73 (hljómar eins og M&M!!). Skemmtileg heimsókn að vanda. Við plönum nú skipulagðar heimsóknir á báða bóga með ótæpilegu heilsusamlegu áti og hlátri.
Maður verður að vera duglegur að sá jákvæðum fræjum í kringum sig ef þau fyrirfinnast, vera duglegur að hrósa og hlæja þegar tilefni er til. T.d. get ég sagt frá þeim jákvæðu fréttum að Andri fékk áframhaldandi vinnu í Húsó þrátt fyrir uppsagnir og breyttan vinnutíma. Það hlýtur bara að teljast nokkuð jákvætt og gott. Það útskýrir hvers vegna ég er kominn á fætur fyrir allar aldir á laugardagsmorgni og innan skamms ætla ég að bruuuuna á kóræfingu í hvíta húsinu og reyna að fínpússa raddböndin og þenja kassann að tenóra sið.
Svo á að vígja reiðhöll Mána í dag og hver veit nema maður skelli sér í skoðunarferð eða þá í göngutúr með hvíta fósturbarnið sem dvelur hjá okkur um þessar mundir. Í leiðinni er tilvalið að viðra danska fósturbarnið sem nú verður vakið af værum blundi til að ná þeim takmörkum sem sett hafa verið fyrir lok febrúar
1.1.2009 | 04:21
Áramót
Nú árið er liðið í aldanna skaut... og svo framvegis.
Við áttum yndisleg áramót hér á H4. Rokk og rólegheit eins og maðurinn sagði. Strákarnir voru verðugir fulltrúar fjölskyldunnar við sprengingaæðið sem hér átti sér stað. Þvílík og slík dýrð á himninum og hvílík veðurblíða. Ég notaði tækifærið og grillaði lambalæri með tilbehör eins og mig hefur dreymt um að gera í mörg ár. Loksins viðraði til þess að grilla um áramót (alltaf svo mikil ferð á logninu í Hrútó) og viti menn þetta smakkaðist afskaplega vel.
Nonni og co. komu svo í heimsókn eftir mat og eyddu kvöldinu með okkur. Meira segja kom gamla settið af Kirkjuteignum í heimsókn líka þannig að það var mjög góðmennt hér. Sú stutta Katla Rut fór á kostum og var í stanslausu stuði til kl. 2:30 þegar fjölskyldan var að tígja sig út í bíl að þá lognaðist hún út af á handlegg pabba síns. Sannkallaður gleðigjafi þessi litla hnáta.
Svo kíktum við aðeins á Gónhólinn og heilsuðum upp á Alexander og Bylgju. Reyndar var það önnur heimsóknin á einum sólarhring þar sem við kíktum til þeirra í morgungöngunni með fröken Sunnu. Slæm samviska var farin að hrjá okkur sökum heimsóknarleysis á Gónhólinn þannig að við lukum árinu 2008 með heimsókn til þeirra og hófum nýtt ár með heimsókn. Þurfum ekki að heimsækja þau í bráð!!!
Samkvæmt venju hef ég ekki strengt nein áramótaheit önnur en þau að láta mér líða vel og stuðla að því sama hjá mínu fólki og þeim sem ég umgengst. Að auki ætla ég að sinna danska fósturbarninu mjög vel og fagna nokkrum merkum áföngum á leið minni að takmarkinu. Meira um það síðar.
Ég vona að þið eigið gott ár í vændum þrátt fyrir ófaraspár í efnahagsmálum þjóðarinnar. Sinnið ykkur sjálfum og þeim sem eru í kringum ykkur og þá mun árið verða hið besta trúi ég.
Mér þætti líka vænt um að þið mynduð kvitta við næsta innlit til þess að ég hafi einhverja hugmynd um það hverjir staldra hér við.
31.12.2008 | 01:19
Jólastúss
Ja, mikið lifandis skelfingar ósköp hafa þessi jól verið góð. Bestu jól í mörg ár að mínu mati. Allt eitthvað svo slakt og afslappað einhvern veginn. Gott að vera í návígi við fólkið sitt en samt eitthvað svo laus og liðugur. Heima er best er kjörorð þessarar fjölskyldu og okkur hefur bara liðið einstaklega vel á þessum fyrstu jólum á H4. Það er komið eitt ár síðan við gengum frá kaupum á húsinu og við erum svo ánægð með það og stolt í alla staði.
Í gær réðumst við feðgar í það þrekvirki að koma heita pottinum fyrir á sínum stað. Það átti að vera létt verk og löðurmannlegt en reyndist vera annað og meira en svo að við gátum ráðið við það svona aleinir. Unnur systir sendi því Ásgeir og Árna í bítið og það varð til þess að við gátum komið pottinum fyrir áður en þeir feðgar ásamt restinni af fjölskyldunni fóru í flug til Tenerife þar sem þau ætla að eyða áramótunum ásamt tengdafólki Kollu litlu sem einmitt varð tvítug í dag. Það munaði nú verulega um meistara Ásgeir sem nú ber þá nafngift enda útskrifaður húsasmíðameistari frá 20. des. sl.
Við létum svo renna í pottinn og ég tók mér bað til að vígja hann og það þarf ekki að spyrja að því að það var einstaklega vel heppnað. Reyndar bíður okkar smá pípulagningavinna svo að allt sé eins og það getur best verið.
Ég setti inn nokkrar myndir frá jólahaldinu og pottverjum að störfum, en þar sem myndaumhverfið hér á síðunni vildi ekki virka hjá mér þá setti ég myndirnar inn á þessari síðu: http://picasaweb.google.com/Njardvik260/JLin2008#
Ef allt gengur eftir þá ætla ég að setja inn síðustu færslu ársins á morgun gamlársdag.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.12.2008 | 11:07
Kúkað við kertaljós
Þessi fyrirsögn er titillinn á metsölubók næstu jóla. Þarna munu sameinast hugleiðingar um lífið og tilveruna sem og góð ráð og hughreysting. Kannski svolítið í anda kreppunnar!!!
Smá djók
Mér datt samt þessi titill í hug þegar ég sat á postulíninu í gær og sinnti mínum verkum. Það var meira að segja búið að kveikja á kertum inni á klósettinu og hátíðleikinn var hvarvetna. Ég sagði fjölskyldunni frá þessari hugmynd við enda borðhaldsins og vakti hún mikla kátínu og bræðurnir voru ekki lengi að koma með útúrsnúninga og ráð um innihald bókarinnar. Svona þarf lítið til að skemmta fólki, smá bull og þá fer allt af stað.
Annars hafa jólin verið mjög ánægjuleg enn sem komið er. Aðeins nýir siðir á nýjum slóðum sem eðlilegt er. Í stað þess að fara til messu í Melstaðarkirkju kíktum við á Kirkjuteiginn og hittum þar fjölskylduna á Greniteig 15 og áttum þar yndislega stund. Þetta höfum við t.d. ekki gert í 16 ár og strákarnir í raun aldrei því Andri man ekki neitt sérstaklega eftir jólunum sem við héldum hér syðra. Í dag er svo planið að rústa hefðum jóladagsins með því að fara í mat til tengdó. Strákarnir hafa verið mjög duglegir við að skamma okkur fyrir að ljá máls á slíku hefðarbroti þar sem þeir vilja liggja fyrir og slappa af, lesa, horfa á myndir og spila á náttfötunum og borða svo hangikjöt þegar líður á daginn. Við erum líka búin að lofa að standa ekki að neinum slíkum ákvörðunum næstu jól. Við ætlum að taka morgundaginn á þennan hátt með þeim svo að allir geti verið glaðir með sitt.
Svo þarf maður að passa að rústa ekki uppeldinu á danska fósturbarninu en um leið að muna að njóta jólanna.
Gleðileg jól þið sem hingað ratið inn í leit að bulli og rugli.
23.12.2008 | 16:15
Jólahugleiðing
Fyrir rúmu ári var ég fenginn til að segja nokkur orð við góða vini sem höfðu safnast saman á aðventustund á Sauðárkróki. Þegar ég var að vafra í tölvunni áðan þá rakst ég á þessi orð mín og ákvað að birta þau hér í tilefni hátíðarinnar sem framundan er.
-------------------------------------
Það á hver hann á. Þessi setning hefur fylgt mér frá því að ég var lítill drengur að vaxa upp í Keflavík. Mamma sagði þessi vísu orð gjarnan þegar við systkinin vorum að svekkja okkur á hvort öðru eða einhverjum sem fóru í taugarnar okkar eða höfðu gert á okkar hlut. Á þessum árum fannst mér þetta bara frasi hjá mömmu sem hún sló um sig með og ég velti ekki fyrir mér innihaldi hans. Þegar ég óx nú úr grasi og fór að vinna með mismunandi fóki og oft á tíðum fjölskrúðugum persónum, þá fóru þessi orð hennar mömmu að hafa meiri og dýpri merkingu fyrir mér. Í erfiðleikum sem á dynja í lífi okkar allra, t.d. samstarfserfiðleikum, í hjónabandinu og á heimilinu verðum við oft svekkt og finnst að gert hafi verið á okkar hlut. Þegar svo árar finnst mér gott að grípa til þessa máltækis og velta aðeins fyrir mér hvort staðan sé virkilega þannig að ekki megi finna eitthvað jákvætt. Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott segir í dægurlagatexta og það á hver hann á sagði mamma. Þessar mæður hafa ævarandi áhrif á okkur og þá kannski helst okkur mömmustrákana. Á morgun segir sá lati er önnur setning sem mamma notaði gjarnan á mig þegar ég átti að taka til hendinni en kom mér ekki að því. Allt fram á unglingsár notaði hún þessa setningu til að hvetja mig áfram og ég held bara að það hafi eitthvað síast inn því í dag er þetta lífsspeki sem takandi er mark á. Lífsspeki sem fjölmargir nota í sínu daglega lífi. Núna í jólaundirbúningnum á þessi speki vel við því verkefnin eru mörg hjá öllum og siðir og venjur hrúgast upp í tengslum við jólahaldið og öllu þarf að ljúka á réttum tíma og með réttum hætti. Við á okkar heimili höfum í gegnum tíðina verið afar dugleg við að búa okkur til okkar siði með okkar sonum. Hins vegar höfum við tekið upp siði ríkisstjórnarinnar og beitt niðurskurðarhnífnum á þessa siði upp á síðkastið. Þar er að segja við þurfum ekki lengur að gera allt það sem gert var árinu áður og árinu þar áður. Við höfum þess í stað tekið upp þá stefnu að njóta aðventunnar frekar en að standa endalaust i þrifum og bakstri. Við reynum að heimsækja vini okkar og vandamenn sem við höfum ekki ræktað nógu vel og þar sem við búum fjarri okkar nánustu fjölskyldu þá höldum við nokkurs konar litlu jól með þeim á aðventunni þar sem við komum saman og borðum góðan mat og ræktum sambandið við hvert annað. Í dag er svo mikill hraði á öllu og öllum þannig að við gefum okkur ekki lengur tíma til að rækta fólkið okkar eins og best skyldi. Aðventan er frábær tími til þessa. En á aðventunni og í kringum jólin gerist margt skoplegt eins og við er að búast. Einn góðvinur minn á Hvammstanga var að hátta sig að kvöldi þriðjudagsins síðasta og áður en hann skreið upp í til konunnar, þá setti hann skó út í glugga, líkt og krakkarnir hans höfu gert fyrr um kvöldið. Konan hans var nú hissa á þessu uppátæki hans og spurði hvað þetta ætti nú að fyrirstilla. -Nú krakkarnir fá sælgæti í skóinn frá Stekkjastaur í nótt og því skyldi ég ekki fá eitthvað líka! Konan hans hristi hausinn yfir barnaskapnum, enda ýmsu vön hjá honum. Hún varð engu að síður ekki lítið hissa þegar kominn var viskí-peli í skóinn um morguninn. En félaginn sagði bara glaður í bragði; -Já hann Stekkjarstaur sér um sína.Sonur okkar var sendibílstjóri í Reykjavík og lendti nú í ýmsu á þeim vettvangi. Í síðastliðinni viku var hann kallaður upp í talstöðinni og sendur í túr upp í Grafarholt. Þegar þangað kom beið hans ung og myndarleg kona sem sagðist vera í vandræðum því bíllinn hennar færi ekki í gang og þess vegna þyrfti að draga hann í gang. Nú sonurinn taldi sig nú ekki vera í vandræðum með að redda þessu viðviki. Hann hnýtti spotta í bílinn og gekk örugglega frá öllu. Síðan settist hann undir stýri og hugðist draga bíl dömunnar í gang. Rétt í því er hann var að aka af stað opnaðist farþegahurðin á bílnum hans og inn steig unga konan og sagðist halda að það væri miklu öruggara fyrir sig að sitja inni í hans bíl meðan verið væri að draga hennar bíl i gang. - Hún var greinilega ekki utan af landi hafði sonur okkar á orði, þegar hann sagði mér frá þessu atviki. Þeir sem þekkja mig vita að það gengur oft mikið á hjá mér og ég vil að hlutirnir gangi hratt fyrir sig. Í barnauppeldinu verður þetta mér oft sem hraðahindrun, því ekki ganga allir alltaf í takt við mig. Fyrir nokkrum árum þegar strákarnir okkar voru yngri gekk mikið á heima og ég var ekki á þolinmóða tímabilinu, þá frekar en svo oft áður. Strákarnir voru óvenju háværir við leiki sína og þegar ég hafði fengið nóg rauk ég inn í herbergi til þeirra og spurði byrstur hvað gengi eiginlega á. Þá sagði sá eldri; -Róaðu þig pabbi, hann er bara að leika þig!
Eitt sinn stóð ég yfir elsta syninum þegar hann var að þvo sér og útskýrði ég vel og vandlega fyrir honum hvernig maður færi að þessu, svo þetta væri nú ekki einhver kattaþvottur. Eftir langa mæðu og miklar útskýringar af minni hálfu leit sonurinn sínum blíðu augum upp til mín og spurði af hjartans einlægni: -Pabbi, ertu ekki orðinn þreyttur í munninum?
Svo mörg voru þau orð.
Um bloggið
H4-260
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar