Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
27.4.2008 | 22:06
Hernám hugans
Titill þessarar færslu á við okkur systkinin, mig og Unni systur. Við lukum sem sagt við lokaritgerðina okkar um áhrif Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og nefndum við hana Hernám hugans. Við lögðum okkur öll fram við ritgerðarsmíðina og bíðum spennt eftir þeim stóra dómi sem væntanlegur er.
Annars sá Ingunn að mestu um framkvæmdirnar við H4. Málaði annan helminginn af kjallaranum, þreif og hugsaði um okkur. Synirnir sinntu sínu og stóðu sig vel í því að þvælast ekki fyrir. Andri var að vinna en dvaldist með okkur þess á milli, Bergur reið út með ömmu og Hjörtur var hálflasinn.
Á föstudaginn fjárfestum við í nýju farartæki sem er ætlað yngri bræðrunum. Fyrst um sinn geta þeir æft sig á Reykjaskóla, en Bergur er að fara á ökunámskeið til réttinda á létt bifhjól og getur þá væntanlega séð um sig sjálfur varðandi ferðir til vinnu í sumar. Annars er það ekki síst Hjörtur sem er spenntastur yfir vespunni og þeytast þeir bræður hér um Reykjatorfuna. Ég setti inn mynd af Hirti á "scooter-num" í myndamöppuna.
Verið svo dugleg að kvitta eða skrifa athugasemdir svo við vitum hverjir eru á ferð um bloggheima.
ÞG
23.4.2008 | 21:20
Vorkvöld við Hrútafjörð
Eftir því sem Bergur hefur eftir Robba skólabílstjóra er vorið komið við Hrútafjörð. Norðanáttin er mætt með innlögn, hálfgerðri þoku og kulda. Og þá ætti sauðburður að geta hafist.
Það er búið að vera mjög gott veður undanfarið þannig að manni ferst ekki að kvarta. Steini bóndi á Reykjum sagði í fyrra að þetta væri bara svikalogn þegar norðanáttin hafði ekki látið á sér kræla lengi. Enda rættist það, hún mætti blessunin fljótlega með sinni fræsu og með sinn kulda.
Í dag sáum við bæði stóran lóuhóp sem og tjald sem var á vappi í fjörunni. Vafalaust voru þessi grey bæði þreytt og köld.
Fyrir mörgum árum sungu Lóuþrælarnir um vorkvöld við Hrútafjörð og svei þá mér ef þau kvöld voru ekki eitthvað hlýrri og fegurri en í kvöld.
ÞG
22.4.2008 | 20:52
Etude No. 5 (duet)
Í dag fórum við á lokatónleika 10. bekkinga sem hafa stundað nám við Tónlistarskóla V-Hún. Bergur Óli spilaði þar á gítar ásamt Danna gítarkennara, eins og hann er jafnan nefndur hér á bæ. Að sjálfsögðu gekk þessi framkoma vel hjá drengnum og við vorum að rifja upp að hann er búinn að vera 11 ár í þessum tónlistarskóla, því þegar hann var 5 ára tölti hann upp á efri hæðina til hennar Lóu á Bessó sem kenndi honum á blokkflautu. Á þessum árum bjuggum við í Laugarbakkaskóla og lífið var svo einfalt, börnin ung og við einnig.
Settum inn myndir af drengnum okkar. Við erum svo stolt af honum.
ÞG & IP
21.4.2008 | 23:29
Bláregnsslóð
Þá er önnur vinnuhelgin á Hæðargötunni liðin.
Undirritaður sinnti reyndar sínum verkum í húsinu lítið því við Unnur systir erum að berjast í lokaritgerðinni okkar við KHÍ og því lenti málningarvinnan að mestu á Ingunni og strákunum. Búið er að mála öll herbergin og ganginn. Brúni veggurinn hjá Hirti þurfti mikla vinnu því hann var mjög illa farinn en þetta er allt að smella hjá okkur. Reyndar kom Hjörtur Geir sár og meiddur úr skólaferðalagi sem hann var í. Hópurinn skellti sér á skauta og sennilega hefur hann verið í of þröngum skautum því hann var með stórar blöðrum á báðum fótum og gat illa hreyft sig.
Andri Már er ekki mjög hrifinn af málningarvinnu og er duglegur að finna sér önnur verkefni. Hann ásamt bræðrum sínum reif niður borð og hillur í kjallaranum og Bergur undirbjó fyrir málningu í sjónvarpsherberginu. Renaultinn hennar Ingunnar var bónaður og við enduðum helgina í kaffiboði hjá fröken Kolbrúnu Ósk og hennar heittelskaða Sandgerðingi honum Hadda. Flott boð og gaman að koma til Sandgerðis. Amma Ollý klikkaði ekki á snillanum á laugardagskvöldið svo feita fjölskyldan var vel mett. Nonni, Fríða og Katla kíktu í heimsókn og líka hún Jóhanna Ísfirðingur sem tölti yfir götuna með mömmu sinni. Fastagestirnir og Gudda frænka, Oddgeir og fjölskyldan á Greniteignum litu við til að taka út verkið og hvetja okkur áfram í baráttunni við málningarvarginn ógurlega. Við kveiktum upp í arninum og nutum þess að heyra snarka í brenninu.
Annað mál. Í flestum betri sjónvarpsþáttum, eins og t.d. Aðþrengdum eiginkonum, er nýjum nágrönnum einstaklega vel tekið með ýmsum hætti. Alls konar matargjafir og kostaboð eru á boðstólum og allir una sælir við sitt. Í hinum ævagamla sjónvarpsþætti Nágrönnum, sem synir mínir missa helst ekki af, eru allir íbúarnir vinir (eða þannig) og eru innviklaðir í líf hvors annars. Enn sem komið er er þetta nú ekki svona á Hæðargötunni enda erum við ekki flutt inn. Ég hef ekki séð nágranna okkar nema í mýflugumynd og fannst það alveg ferlega fyndið þegar ég sá nábýling minn í næsta húsi flýta sér að skella hurðinni á eftir sér þegar hún sá að við vorum að skoða lóðina okkar og að það væri kannski smá möguleiki á að við myndum taka eftir henni.
Ég græt það nú ekki að allir nágrannarnir séu ekki grenjandi á hurðarhúninum hjá okkur öllum stundum og er alveg viss um að þetta er allt saman ágætis fólk sem við munum kynnast örlítið betur þegar við flytjum í húsið okkar.
Annars er það að frétta af húsinu að einhverjir óknyttastrákar eru sífellt uppi á þaki á því og fundu hjá sér þörf til að kasta steini í útiljósið okkar og brjóta það (við ætluðum svo sem að fá okkur nýtt!!) þannig að við skiljum ekki alveg hvað þeim gengur til.
Um mánaðarmótin er von á her iðnaðarmanna sem ætla að gera við múrhúðina á húsinu og filtera það allt og gera það tilbúið fyrir málningu. Þessir menn verða á vegum ÁÁ-verktaka. Við liggjum nú yfir litaprufum og höfum rúntað um öll helstu íbúðarhverfi frá Njarðvík að Reykjaskóla í leit að húsum sem okkur finnast flott á litinn ;-)
Um næstu helgi er fyrirhugað að mála kjallarann og vinna að þeim breytingum sem þar eiga að fara fram.
Nýjar myndir í myndamöppunni.
MBK
ÞG
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2008 | 17:35
Allt verður einhvern tímann fyrst...
Þar kom að því. Flestir eru nú farnir að blogga.
Ég tók ákvörðun í dag um það að skrá hjá mér í dagbók allt í kringum þetta stóra skref okkar í fjölskyldunni að flutningunum suður í húsið okkar í Njarðvík. Bloggið ber nafnið h4 því það er skírskotun í húsið, þ.e. Hæðargötu 4 og við höfum fengið nýtt netfang sem einmitt er h4@simnet.is (einfalt, sniðugt og gott að muna!!!)
Í myndamöppuna erum komnar nokkrar myndir frá fyrstu helginni sem við eyddum í húsinu. Okkur leið mjög vel og sættum okkur fullkomlega við að búa við þröngan kost svona fyrst um sinn, enda stutt í góða ættingja og vini sem hafa helst áhyggjur af því að við munum horfalla (eins og það er nú líklegt) miðað við það hversu duglegir allir eru að bjóða okkur í mat. Við gömlu hjónin (eins og við fíluðum okkur um helgina) áttum ekki mjög svefnsamar nætur, og það kom ekki til af góðu. Flugvélaþyturinn vakti okkur á ókristilegum tíma. Það mætti halda að við værum að sofa í Reykjanesbæ í fyrsta skipti. Reyndar var þetta nú bærilegra seinni nóttina enda var okkur sagt að þetta myndi nú venjast fljótt. Svona er maður nú fljótur að venjast og afvenjast hlutunum í umhverfinu.
Við hófum framkvæmdirnar með því að mála herbergið hans Andra litla en það er í forstofunni. Mér datt nú í hug að hann hefði valið þetta herbergi til að vera fljótur út ef í harðbakka slær á heimilinu. Hann er búinn að vera svo lengi út af fyrir sig og þarf því örugglega að venjast því að búa með ráðríkum foreldrum og ofspilltum brærðum (að hans sögn). Nú svo var forstofan máluð og svo litla herbergið innst á ganginum (Marhissu herbergi !!). Við undirbjuggum herbergið hans Bergs til málunar og um þessa helgi er fyrirhugað að mála það og einnig herbergið hans Hjartar. Hjörtur fær stærsta herbergið því hann á vorkunn bræðra sinna vegna þessara flutninga.
Andri Már er líka búinn að prófa að gista á Hæðargötunni. Honum líkar nú ekki illa að hafa heilt einbýlishús út af fyrir sig. Hann málaði inn í skápana í anddyrinu, teipaði meðfram og prófaði baðkarið.
Meira seinna.
ÞG
Vinir og fjölskylda | Breytt 18.4.2008 kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
H4-260
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar