Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Kreppuvísa

Gunni vinur minn í Bumbusjóðnum sendi mér þessa vísu sem á vel við þessa dagana, eða hvað??? 

Þótt veraldargengið sé valt
og úti andskoti kalt.
Með góðri kellingu
í réttri stellingu
bjargast yfirleitt allt.

Í sjónvarpinu er svo Gunnar Dal að flytja ljóð sem ekki eru kreppuljóð. Engu að síður var hann að lýsa því að hann hefði samúð með fólkinu sem er að upplifa kreppuna á eigin skinni. Hann sagðist hafa alist upp í fátækt og að hann hefði upplifað það að þá var mikil vinátta milli manna. Eins og fátæktin hefði tengt menn betur saman. Og þá lásu menn bækur. Menn áttu bæði vináttu og bækur.

Sennilega er þetta það besta kreppuráð sem ég hef heyrt Wink

Verum góð hvert við annað og lesum góðar bækur.


BH fallinn

Stórtíðindi dagsins eru tvímælalaust að skemmtilegasti þingmaðurinn sagði af sér í dag. Hvort það sé rétt eða rangt, verðskuldað eða hvað þá þarf enginn að velkjast í vafa um að þingið verður ekki eins skemmtilegur vinnustaður þegar þessi mæti maður hverfur úr sölum þess.

Ég þekki Bjarna ekki neitt en hef heyrt hann segja sögur af mönnum og málefnum og skemmtilegri sagnamaður fyrirfinnst varla.

Samt má gleðjast yfir því að BH er með afsögn sinni að setja fordæmi fyrir aðra í hans stétt sem mættu illu heilli hirða pokann sinn og finna sér störf við hæfi. Þá kæmust kannski hæfari menn að og við væru vonandi í betri stöðu sem þjóð. Helsta helsi okkar eru óhæfir ráðamenn sem ráða ekki við að segja allan sannleikann og eru vafðir í vef flokkshollustu og þröngsýni.

 


Danska fósturbarnið

Það virðist vera einhver smá kveisa í danska fósturbarninu. Kannski eru það eftirköst eftir helgina?? Ég sagðist reyndar ætla að kenna Fríðu og Nonna um það ef barnið yrði óþekkt eftir afmælisveisluna hennar Elfu Rutar en sennilega verðum við að horfast í augu við það að okkar uppeldisaðferðir eru ekki að virka nógu vel sl. viku. Vonumst eftir betri hegðun næstu viku.

Eitthvað er að kólna í Stór-Keflavíkurborg og inn leggur kunnuglegan gustinn þegar opnað er. Engu að síður notaði ég frostleysið til að vaska fjölskyldubifreiðina enda aðstæður hinar bestu hér í borg.

Í Kastljósinu í kvöld voru lesin upp nokkur aðsend bréf. Þar var endað á bréfi frá 11 ára stúlku sem lýsti áhyggjum sínum af kreppunni. Ég held að þessi skynuga stúlkukind hafi súmmað upp skoðanir og tilfinningar margra sem eru eins ljóshærðir og ég í þessu írafári og skilja takmarkað af öllu því sem á borð er borið og trúa ekki að háttsettir lýðræðislega kosnir ráðamenn ljúgi að fólki á degi hverjum og sumir oft á dag. Er ekki að verða komið nóg? Hvað með eignir þessara svokölluðu auðmanna sem komu okkur á hausinn? Væri ekki hægt að selja eitthvað af þeim upp í skuldir, t.d. Baugssnekkjuna, einkaþoturnar og fleira? Er þetta kannski allt skuldsett upp í topp og kannski ennþá lengra hjá sumum.

Einn snillinn í bekknum mínum sagði að þeir feðgarnir finndu ekkert fyrir kreppunni því þeir ættu ekki hjólhýsi, væru ekki með erlend bílalán og ættu ekki eigið húsnæði. Þeir hefðu ekki verið að reyna að sýnast neitt stærri en þeir í raun væru.
Mikil lukka hjá þessum feðgum verð ég nú bara að segja miðað við ástandið í dag. 


Ábyrg netnotkun

Í fyrramálið mæta hér í skólann fyrirlesarar til að flytja erindi sín um ábyrga netnotkun. Sennilega er full þörf á að fræða foreldra og nemendur um þessi mál. Ég hlakka til að vita hvort ég muni ekki fá einhverjar ávítur eða geti samsamað mig í þeim dæmum sem tekin verða fyrir. Reyndar er það svo að til eru dæmi um skítkast milli barna á grunnskólaaldri sem fer aðallega fram í commentum á síðum og á spjallrásum. Sennilega er þetta fínn miðill fyrir þá sem aldrei þora að segja neitt fyrir framan aðra heldur breytast í tjáningarhetjur þegar heim er komið, búið að lepja kókómaltið með kexinu og þörfin til að tjá sig fer í fullan ham. Þá er nú bara betra að geta tjáð sig fullum hálsi þar sem maður er hverju sinni.

Bloggsíður sem þessi eru einmitt dæmi fyrir þá sem ekki þora að tjá sig með venjulegum hætti heldur í skotgröfum tölvuheimanna. Sennilega ætti ég að loka síðunni og fá mér gamlan kókkassa til að stíga á þegar ég fæ þörf til að tjá mig.

Hver veit? 


Á íslenskum degi tungunnar...

Við matarborðið rataðist örverpinu í fjölskyldunni þessi vísdómsorð á munn. Þetta kemur þeim sem til þekkja ekkert á óvart því hann er náskyldur Bibbu á Brávallagötunni hvað þetta varðar. Þrautseigur var frasinn hans - á einasta hverjum degi -
Þessi umræða um Dag íslenskrar tungu hófst því litli trommuleikarinn var að segja frá því að hljómsveitin frá því á Legokeppninni hefði verið beðin um að flytja íslenskt lag í skólanum þennan dag. Það var nú ekki vandamálið og það kom bara eitt útlent orð fyrir í textanum, nefnilega shit Cool

Annars er það helst tíðinda að fjölskyldan brunaði í sveitina til að skila fósturbörnunum til síns heima og í góðri trú að verið væri að halda upp á fertugsafmæli nýjasta tilvonandi tengdasonarins á bænum. Þetta var nú byggt á einhverju öðru en við bjuggumst við. Afmælisveislan var víst í gærkvöldi!!! Ekki verða höfð fleiri orð um það hér til að hryggja ekki viðkvæmar sálir Errm 
Reyndar var fjölskyldubíllinn of lítill fyrir fjölskylduna og fósturbörnin og því var faðirinn skilinn eftir heima á degi feðranna.

Quantum of Solace er víst bara málið þessum vonbrigðum til sárabótar.

Erna vinkona okkar á afmæli í dag, þessi elska. Ekki deginum eldri en þegar við hittum hana fyrst fyrir rúmum 18 árum. Innilega til hamingju með daginn Erna okkar Wizard

 


First Lego

Í gær fórum við í Öskju til að fylgjast með Hirti Geir taka þátt í skemmtiatriði Njarðvíkurskóla í Legokeppninni. Hans hlutverk var að berja húðir í frumsömdum blús sem bar víst ekki nafnið Nauðgun þegar til kom. Í trommusólóinu missti litli trommuleikarinn annan kjuðann en til allrar lukku var hann með auka kjuða á settinu svo hann missti varla slag úr þrátt fyrir óhappið. Tær snilld hjá honum.

Ég setti inn myndir af þessum viðburði ásamt myndum af skemmtiatriði Myllubakkaskóla á vefinn á slóðinni: www.picasaweb.google.com/Njardvik260

Er annars ekki "feðradagurinn" í dag???
Ég verð ekki var við að hann sé haldinn mjög hátíðlegur á þessum bæ FootinMouth
Búinn að bera út, ryksuga og þrífa meðan synirnir sem ættu að hylla þennan merkilega dag liggja í leti eða sofa.


Fröken systurdóttir

Fyrir þá sem ekki vita þá gengur fröken Marhissa Kristín undir þessu gælunafni hér á H4. Þetta kallaði hún sig sjálf við Ingunni einhverju sinni þegar hún vildi vita tengsl þeirra frænkna. Fröken systurdóttir er sem sagt mætt og litar heimilishaldið á sinn hátt eins og vanalega. Hér er nefnilega vaninn að hún hefur alla í vasanum og allir snúast í kringum hana. Engu að síður er hún á allan mögulegan hátt hreint og beint yndisleg og sýnir eingöngu sínar bestu hliðar. Við þekkjum ekki aðrar hliðar á henni en þær sem hún sýnir okkur hér og gleðjumst yfir því að eiga svolítið í henni. Maður vaknaði nú reyndar allur lurkum laminn í morgun því frökenin sefur að sjálfsögðu uppí og við erum fyrir löngu komin úr allri þjálfun í þeim málum, eins og gefur að skilja.

Á morgun er fyrirhugað að kíkja á Lego-keppnina í Öskju. Þar er Hjörtur Geir að taka þátt í skemmtiatriði Njarðvíkurskóla með því að spila á trommur í frumsömdum blús sem ber víst nafnið Nauðgun  Cool

Svo þarf að fara yfir heimavinnu, próf og slíkt fyrir nýja vinnuviku.

 


Börn og fósturbörn

Af börnum er allt gott að frétta og fósturbörnum einnig.

B.Óli ók í fyrsta skipti til höfuðborgarinnar og eilítið lengra en það í gærkvöldi með æfingaakstursmiðann á mömmubílnum. Aksturinn gekk í alla staði mjög vel og Ólinn með góða yfirsýn og sallarólegur með meirihluta fjölskyldunnar í bílnum. Aðstæðurnar voru sunnlenskar, rigning og suddi.

Danska fósturbarnið stendur sig mjög vel og má segja að við höfum náð prýðisgóðum tökum á því síðustu vikuna og árangurinn eftir því Grin Engar tölur verða þó gefnar upp að sinni en þegar ákveðnum áfanga verður náð þá verður kjaftað frá - og ef svo gengur sem hingað til þá er ekki langt í það.

Við erum að vona að við fáum fósturprinsessuna til okkar á fimmtudagskvöldið ef allt gengur eftir. Fröken systurdóttir ætlar að koma til dvalar í smá tíma meðan mamma hennar sinnir ástmanninum.

Spennandi tímar framundan í myrkri og skítaveðri nóvembermánaðar.


Í helgarlok

Íslensk hjón röltu inn á á  málverkasýningu í Nútímalistasafninu í
Glasgow. Þau staðnæmdust við eitt  málverkanna sem þau botnuðu ekkert í.
Verkið sýndi 3 kolsvarta og kviknakta  karlmenn sitjandi á bekk í
almenningsgarði. Það sem vakti mesta undrun þeirra  var að svarti
maðurinn í miðið var með skærbleikt tippi en hin tvö voru  svört.

Safnvörður veitti hjónunum athygli og gerði sér grein fyrir því að  þau
voru að velta fyrir sér merkingu verksins. Hann hélt  nærri
korters-fyrirlestur um hvernig verkið endurspeglaði ofuráherslu á  hinn
kynferðislega þátt í lífi og umhverfi svarta kynstofnsins í  hvítu
samfélagi. Og bætti því við að ,,sá bleiki” væri jafnframt vísbending  um
sérstöðu hommans á meðal karlmanna.

Þegar safnvörðurinn hafði lokið  tölunni og snúið sér að  öðrum
sýningargestum gaf sig skoskur  maður á tal við hjónin og spurði hvort
þau vildu vita hvað þetta verk  táknaði? Þau spurðu hvers vegna hann ætti
að geta skýrt það betur en  safnvörðurinn?

Vegna þess að ég er höfundur verksins”, sagði hann. Í raun  og veru eru
þetta ekki svertingjar - þetta eru einfaldlega 3 skoskir  kolanámumenn.
Eini munurinn á þeim er sá að þessi í miðjunni skrapp heim
matartímanum!


Breytingar

Eins og flestir sem mig þekkja er ég frekar fastheldinn og lítið fyrir breytingar. Engu að síður tekst ég á við breytingar í stórum stíl þessa dagana. Ég er búinn að vera í afleysingu í 6. MF í Myllunni og bara líkað vel. Lífið er að ná góðum brag þarna inni og ekki yfir neinu að kvarta. En viti menn. Í dag kom í ljós að ég er að hætta með þennan bekk og taka við öðrum 6. bekk og núna sem umsjónarkennari til vors. Mér líst bara vel á þennan bekk en hefði viljað klára þau verkefni sem ég er með í hinum bekknum, en þau verða bara að bíða betri tíma

Núna á að skunda á þvottastöð og nota hlákuna til að vaska mestu seltuna af farartækinu í öruggum akstri Bergs Óla sem stendur sig mjög vel í umferðinni.

Núna virðast margir vera að loka bloggum sínum sökum skítkasts og bulls frá óvönduðum aðilum, en ég held áfram ótrauður enda ekki fengið nein viðbrögð við mínu bulli í líkingu við það sem þetta ágæta fólk hefur mátt sitja undir.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar og sumir ættu að passa sig að kasta ekki steinum úr glerhúsi W00t


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

H4-260

Höfundur

H4-260
H4-260

Nú hefur fjölskyldan komið sér fyrir á H4 og þá notar fjölskyldufaðirinn tækifærið til að skrá skoðanir sínar á síðunni.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...img_102
  • img 075
  • laddi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband