Jólahugleiðing

Fyrir rúmu ári var ég fenginn til að segja nokkur orð við góða vini sem höfðu safnast saman á aðventustund á Sauðárkróki. Þegar ég var að vafra í tölvunni áðan þá rakst ég á þessi orð mín og ákvað að birta þau hér í tilefni hátíðarinnar sem framundan er.

-------------------------------------

Það á hver hann á. Þessi setning hefur fylgt mér frá því að ég var lítill drengur að vaxa upp í Keflavík. Mamma sagði þessi vísu orð gjarnan þegar við systkinin vorum að svekkja okkur á hvort öðru eða einhverjum sem fóru í taugarnar okkar eða höfðu gert á okkar hlut. Á þessum árum fannst mér þetta bara frasi hjá mömmu sem hún sló um sig með og ég velti ekki fyrir mér innihaldi hans. Þegar ég óx nú úr grasi og fór að vinna með mismunandi fóki og oft á tíðum fjölskrúðugum persónum, þá fóru þessi orð hennar mömmu að hafa meiri og dýpri merkingu fyrir mér. Í erfiðleikum sem á dynja í lífi okkar allra, t.d. samstarfserfiðleikum, í hjónabandinu og á heimilinu verðum við oft svekkt og finnst að gert hafi verið á okkar hlut. Þegar svo árar finnst mér gott að grípa til þessa máltækis og velta aðeins fyrir mér hvort staðan sé virkilega þannig að ekki megi finna eitthvað jákvætt. Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott segir í dægurlagatexta og það á hver hann á sagði mamma. Þessar mæður hafa ævarandi áhrif á okkur og þá kannski helst okkur mömmustrákana. Á morgun segir sá lati er önnur setning sem mamma notaði gjarnan á mig þegar ég átti að taka til hendinni en kom mér ekki að því. Allt fram á unglingsár notaði hún þessa setningu til að hvetja mig áfram og ég held bara að það hafi eitthvað síast inn því í dag er þetta lífsspeki sem takandi er mark á. Lífsspeki sem fjölmargir nota í sínu daglega lífi. Núna í jólaundirbúningnum á þessi speki vel við því verkefnin eru mörg hjá öllum og siðir og venjur hrúgast upp í tengslum við jólahaldið og öllu þarf að ljúka á réttum tíma og með réttum hætti. Við á okkar heimili höfum í gegnum tíðina verið afar dugleg við að búa okkur til okkar siði með okkar sonum. Hins vegar höfum við tekið upp siði ríkisstjórnarinnar og beitt niðurskurðarhnífnum á þessa siði upp á síðkastið. Þar er að segja við þurfum ekki lengur að gera allt það sem gert var árinu áður og árinu þar áður. Við höfum þess í stað tekið upp þá stefnu að njóta aðventunnar frekar en að standa endalaust i þrifum og bakstri. Við reynum að heimsækja vini okkar og vandamenn sem við höfum ekki ræktað nógu vel og þar sem við búum fjarri okkar nánustu fjölskyldu þá höldum við nokkurs konar litlu jól með þeim á aðventunni þar sem við komum saman og borðum góðan mat og ræktum sambandið við hvert annað. Í dag er svo mikill hraði á öllu og öllum þannig að við gefum okkur ekki lengur tíma til að rækta fólkið okkar eins og best skyldi. Aðventan er frábær tími til þessa. En á aðventunni og í kringum jólin gerist margt skoplegt eins og við er að búast. Einn góðvinur minn á Hvammstanga var að hátta sig að kvöldi þriðjudagsins síðasta og áður en hann skreið upp í til konunnar, þá setti hann skó út í glugga, líkt og krakkarnir hans höfu gert fyrr um kvöldið. Konan hans var nú hissa á þessu uppátæki hans og spurði hvað þetta ætti nú að fyrirstilla. -Nú krakkarnir fá sælgæti í skóinn frá Stekkjastaur í nótt og því skyldi ég ekki fá eitthvað líka! Konan hans hristi hausinn yfir barnaskapnum, enda ýmsu vön hjá honum. Hún varð engu að síður ekki lítið hissa þegar kominn var viskí-peli í skóinn um morguninn. En félaginn sagði bara glaður í bragði; -Já hann Stekkjarstaur sér um sína.Sonur okkar var sendibílstjóri í Reykjavík og lendti nú í ýmsu á þeim vettvangi. Í síðastliðinni viku var hann kallaður upp í talstöðinni og sendur í túr upp í Grafarholt. Þegar þangað kom beið hans ung og myndarleg kona sem sagðist vera í vandræðum því bíllinn hennar færi ekki í gang og þess vegna þyrfti að draga hann í gang. Nú sonurinn taldi sig nú ekki vera í vandræðum með að redda þessu viðviki. Hann hnýtti spotta í bílinn og gekk örugglega frá öllu. Síðan settist hann undir stýri og hugðist draga bíl dömunnar í gang. Rétt í því er hann var að aka af stað opnaðist farþegahurðin á bílnum hans og inn steig unga konan og sagðist halda að það væri miklu öruggara fyrir sig að sitja inni í hans bíl meðan verið væri að draga hennar bíl i gang. - Hún var greinilega ekki utan af landi hafði sonur okkar á orði, þegar hann sagði mér frá þessu atviki. Þeir sem þekkja mig vita að það gengur oft mikið á hjá mér og ég vil að hlutirnir gangi hratt fyrir sig. Í barnauppeldinu verður þetta mér oft sem hraðahindrun, því ekki ganga allir alltaf í takt við mig. Fyrir nokkrum árum þegar strákarnir okkar voru yngri gekk mikið á heima og ég var ekki á þolinmóða tímabilinu, þá frekar en svo oft áður. Strákarnir voru óvenju háværir við leiki sína og þegar ég hafði fengið nóg rauk ég inn í herbergi til þeirra og spurði byrstur hvað gengi eiginlega á. Þá sagði sá eldri; -Róaðu þig pabbi, hann er bara að leika þig!

Eitt sinn stóð ég yfir elsta syninum þegar hann var að þvo sér og útskýrði ég vel og vandlega fyrir honum hvernig maður færi að þessu, svo þetta væri nú ekki einhver kattaþvottur. Eftir langa mæðu og miklar útskýringar af minni hálfu leit sonurinn sínum blíðu augum upp til mín og spurði af hjartans einlægni: -Pabbi,  – ertu ekki orðinn þreyttur í munninum?

Svo mörg voru þau orð.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

H4-260

Höfundur

H4-260
H4-260

Nú hefur fjölskyldan komið sér fyrir á H4 og þá notar fjölskyldufaðirinn tækifærið til að skrá skoðanir sínar á síðunni.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...img_102
  • img 075
  • laddi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband