Fjögur brúðkaup og jarðarför

Þessi mynd er ein af mínum uppáhalds myndum. Húmorinn í henni er sígildur og í hvert sinn sem brúðkaup er í vændum horfi ég á þessa mynd. Á morgun (eða í dag öllu heldur) er einmitt brúðkaup Gunna og Marínar. Mikill undirbúningur er búinn að eiga sér stað, allt að verða tilbúið og ekkert eftir nema að búa til sönghefti, lagfæra ræðuna, búa til play-lista fyrir partíið, skera grafna kjötið, skúra salinn, baða sig og raka, þrífa bílinn, búa til sæta-kartöflumús, upphugsa einhverja hrekki eða leiki og örugglega eitthvað fleira.

Frænkurnar eru lagstar til hvílu inni hjónarúmi og ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi ekki bara að svindla og sofa í næsta herbergi við þær því fröken Marhissa þarf ótrúlega mikið pláss þó lítil sé.

Á þessum árstíma á maður að vaka næturlangt því júnínóttin hefur svo mikinn sjarma og það er svo mikið að gerast í náttúrunni.

Yfir og út, eða Roger eins og Hjörtur björgunarsveitaunglingur segir.


Skápar, púl og sjónvarpsleiðslur

Eins og oft vill verða hjá þessari fjölskyldu þá verður okkur drjúgt úr verki síðla dags, kvölds og nætur. Þannig var það einmitt í dag. Við ætluðum bara rétt að kíkja á Kirkjuteiginn og Hjörturinn ætlaði að slá fyrir ömmu og afa. Rétt þegar faðirinn hafði gert grín að kraftleysinu í syninum greip hann sláttuvélina enda oft slegið þennan blettinn áður. Viti menn, það var pabbinn sem var kraftlaus, andlaus, sveittur og á barmi hjartaáfalls við það að ýta sláttuvélinni um mosabeðuna sem er í lóðinni hjá gömlu. Þvílíkt og slíkt. Þetta kallar á skjótar ráðstafanir. Annað hvort þarf að bæta þolið og kraftinn eða kaupa sláttuvél með drifi. En að lokum skutluðum við grasinu upp á Typpin (örnefni sem ég hef nú ekki heyrt áður!!!) svo var haldið heim. Þá tók nú ekki betra við. Faðirinn ákvað að snyrta framhlið hekksins á H4. Snyrtingin tókst vel ef frá er talið að snillingurinn sem fór hamförum með rafmagnshekkklippurnar klippti í tvígang í snúruna og sló öllu út og þurfti að stytta snúruna tvisvar. Einu sinni var þetta 50 m löng snúra en núna er hún í kringum 30m Wink

Kíktum svo til eðalhjónanna á Greniteignum, en Hjörtur er búinn að vera í stanslausu sambandi við Unni frænku um MacBook-tölvuna. Þau eiga þetta sameiginlegt ásamt mörgu öðru, því eins og allir vita eru þau Greniteigshjón og fjölskylda þeirra nánasta fjölskylda Hjartar og bestu vinir Cool því þau fíla kenjarnar og stælana í lillanum og því er hann sameign okkar.

Þegar heim var komið var ráðist í að koma út úr skápnum í eiginlegri mynd. Bergur, þessi snillingur, var búinn að setja saman 3 fataskápa í hjónasvítuna og það þurfti bara að tengja þá saman og setja hurðir á þá. Á meðan baxaði Andri í sjónvarpstengingum því það á ekki að vera sjónvarp í stofunni uppi, aðeins á veggnum milli eldhússins og stofunnar og því þurfti að leggja nýjar lagnir fyrir það. Frú Pedersen réðst í að setja saman borðstofuskenkinn sem hún fjárfesti í fyrir nokkru og er enn að þegar þetta er skrifað.

Sá sem slær ótt og títt á lyklaborðið milli þess sem hann sýpur á einum grænum er að hugsa um að fara að hvíla sig í loftvarnarbyrginu í kjallaranum í von um að frúin ljái máls á að ganga til hvílu en hún er í miklum skápaham.

Yfir og út -- ÞG


Virkur dagur

Fyrsti virki dagurinn okkar á H4 rann upp með því að vekja Andra (alltaf jafn gaman) og sundspretti hinna feðganna meðan móðirin gekk frá kössum í kjallaranum. Sundferðin var farin með þeim tilgangi að reyna að liðka öxlina á pabbanum en viti menn þegar púlsinn var kominn í hámark  eftir örfáar sundferðir var potturinn fyrir valinu. Á meðan nuddstúturinn hamaðist á spikinu fylltist allt af krökkum og áhugasömum mæðrum sem voru greinilega í hlutverki fylgdarmanna. Sumar voru ansi harðar í horn að taka í boðum og bönnum en aumingja börnin fóru bara eftir því að vild. Þrautin var svo þyngri þegar undirritaður sá að ekki dygði lengur að hanga í pottinum og ekkert útlit fyrir að hinar forvitnu mæður væru neitt að hverfa af vettvangi. Þá voru góð ráð rándýr. Inn með bumbuna og út með kassann og tölta svo lipurlega í þeirri vonlausu von að enginn væri að fylgjast með Blush  Bergur bauðst reyndar til að ráðast á einhvern gríslinginn í djúpu lauginni í von um að þá myndi athygli hinna grandvöru fylgdarmanna beinast þangað í stað þess að þær myndu allar mæla mann út. Inn sluppum við og höfum áreiðanlega séð mörgum saumaklúbbnum hér syðra fyrir smjattefni sökum gjörvuleika okkar feðga.

Deginum var svo eytt í höfuðborginni við innkaup og snúninga. Sendillinn (www.zl-660.blog.is) er kominn á bílasölu og lillinn keypti sér forláta MacBook fartölvu eins og Unnur frænka á (að sjálfsögðu) Wink

Samkvæmt venju gleymdi Hjörtur peningunum heima þannig að foreldrarnir máttu reiða fram peninga til kaupanna. Þessi færsla er einmitt skrifuð á umræddan grip. Framundan er að klippa trén, taka upp úr kössum, kíkja á Kirkjuteiginn og undirbúa brúðkaupið og fertugsafmælið um helgina.

ÞG


Leðurhægindasófi til sölu

Gott fólk.
Þó sárt sé þá sýnist okkur að við verðum að selja stærri leðursófann okkar, því hann er að öllum líkindum of stór í stofuna á H4 Frown

Sófinn var keyptur í Val-húsgögnum og er svokallaður letingjasófi (Lazy-boy) með tveimur skammelum. Ótrúlega þægilegur sjónvarpsófi sem mörgum hefur þótt gott að halla sér aðeins í. Sófinn kostaði 150.000.- þegar við keyptum hann fyrir tæpum tveimur árum síðan.

img 081        img 077 

Látið þetta endilega fréttast og hjálpið okkur við að selja gripinn Wink


Flutningar og meiri flutningar

Nú er allt á fullu á Rsk því við vorum svo dugleg í vinnunni í gær að við ákváðum að halda suður með fullan bíl í kvöld. Okkar bíður þar að tæma og koma dótinu fyrir. IP stjórnar þessu af mikilli röggsemi meðan ég blogga, skrepp á Hvt. og fleira í þeim dúr.

IP


Sendill til sölu

Í dag stigum við stórt skref. Ég fór á bílasöluna hjá Jóa vini mínum á Hvt. og skráði sendilinn hans Andra. Við ætlum að skrá hann hjá fleiri sölum syðra því Andri er kominn í fullst starf í Húsasmiðjunni og stefnir á skóla í haust.

Þetta er góður og lipur bíll með rúmlega 8 rúmmetra flutningsrými. Á honum hvílir hagstætt lán. Ef þið sem lesið bloggið okkar vitið um einhvern sem er að leita að svona bíl þá yrðum við afar þakklát fyrir allar ábendingar og hjálp. Það eru komnar myndir af bílnum í myndasafnið á þessari síðu.

ÞG


I want it all - I want it now

Svona líður mér þessa stundina. Í stað þess að vera í frágangi og þrifum myndi ég miklu heldur vera á H4 og klára allt það sem ekki vannst um helgina.

Á föstudagskvöldið kom tengdó-ið mitt á leið sinni til Akureyrar. Skemmtilegt spjall, kunnuglegar hrotur í Bendt og góður matur. Brunuðum svo suður í morgunsárið, miklu seinna en áætlað var sökum lítils svefns. Svo var verslað og haldið suður með sjó. Þar biðu okkar góðir gestir. Erna og ökukennarinn Elías voru í útsýnis- og kynningarferð um Reykjanesið. Í Sandgerði var haldið og kíkt á Kollu litlu frænku, sem reyndar er orðin stór - trúlofuð og allt. Þar voru allir í pallasmíði og ekki vert að trufla vinnandi fólk. Kvöldið fór svo í málningarvinnu og fleira skemmtilegt.

Á sunnudeginum kláraði frú Ingunn kjarnorskusprengja að mála stofuna og ég kláraði það sem ég gat í kjallaranum. Mikill gestagangur og skemmtilegt. Því miður náðist ekki að standa við allt það sem skrifað var hér á dögunum að ætti að gera þessa helgina. Eldhúsið stendur enn ómálað og skáparnir í kjallaranum og stofuskápurinn bíða eftir að verða settir saman. Vonum að Andri finni hjá sér áður ókunna þörf til skápasamsetningar, þessi elska. Þeir bræður litli og stóri slógu garðinn og hirtu en miðjubarnið var heima að vinna að sláttutækjum, pylsum og hamborgurum - ótrúlega duglegur. Seint og um síður var svo brunað heim á sendlinum sem nú er til sölu. Gott að löggan var þreytt eftir viðburði helgarinnar og sást ekki á þjóðvegi 1 Halo

Besta hljómsveit allra tíma QUEEN söng í einu laga sinna titilinn að þessum pistli og það verða einkunnarorð þessa fallega dags. Verst að sólin skuli ekki skína í þvottahúsinu og á herbergjunum sem þarf að gera klár Woundering


Allt á sinn tíma

Þá er síðasti skólabúðahópurinn okkar farinn. Ég var nú hálfklökkur þegar ég kvaddi þau í matsalnum. Harkaði það svo af mér og stóð keikur enda mjög sáttur við þær breytingar sem í vændum eru. Við tekur frágangur, þrif og fleira skemmtilegt GetLost

Seinni partinn er svo von á tengdó-inu mínu sem eru á leið til Akureyrar en ætla að á hér í nótt og hlökkum við mikið til að fá þau, sennilega í síðasta sinn sem þau koma hingað til okkar.

Svo á að bruna suður á bóginn í blíðuna og reyna að gera skurk í málun á stofu og eldhúsi og sjá hvernig húsið lítur út núna eftir verktakana sem eru að vinna í því.

Allt á sinn tíma og svo er einnig með skólabúðatímann okkar. Þetta eru búin að vera 7 nokkuð góð ár og ýmislegt hefur gerst á þessum tíma sem safnast í reynslusarpinn okkar.

Góðar stundir.
ÞG


Starfsmaður í þjálfun...

...í gær en starfsmaður á plani í dag.

Þessi ummæli eiga við örverpið okkar hann Hjört Geir. Hann fór á fyrstu bensínvaktina í gær með stóra bróðurnum til að öðlast þjálfun. Í dag á hann að standa vaktina einn. Það var því þreyttur og kvíðinn strákur sem var vakinn í morgun til vinnu. Hann á pottþétt eftir að standa sína plikt, enda er hann með fullkomnunaráráttu gagnvart svona löguðu og vill ekki að neitt klikki hjá sér.

Síðasti fimmtudagurinn upp runninn í skólabúðunum og hófst hann með messusöng í matsalnum yfir óþekkum ungum sem fóru í leyfisleysi í sundlaugina í gær án eftirlits og sýndu kennurum sínum vanvirðingu. Ég er sem sagt búinn að fá útrás í dag. Skyldi ég eiga eftir að sakna þess að halda eldræður yfir unglingum? Hver veit?

ÞG


Síðasta vikan

Ótrúlegt en satt. Síðasta vikan okkar er hafin Woundering

Þetta er ég búinn að gera í síðasta sinn i dag:
Taka á móti börnunum í rútunum
Flytja mánudagsræðuna
Halda kennarafund með komukennurum
Stjórna mánudagskvöldvöku...

... og örugglega fjölmargt fleira sem ég man ekki eftir í svipinn.

Hvað tekur svo við verður bara að koma í ljós. Það eru allir að velta fyrir sér við hvað við erum að fara að starfa og verða vægast sagt hissa þegar við segjumst ekki vera farin að velta því fyrir okkur. Fyrst er að flytja og fara í sumarfrí og svo að taka slaginn um atvinnumálin. Við erum alla vega sallaróleg yfir þessu.

Annars er bara allt með nokkuð kyrrum kjörum á vígstöðvunum. Bíðum spennt eftir helginni því þá á að taka til við penslana og rúllurnar og sitthvað fleira á H4.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

H4-260

Höfundur

H4-260
H4-260

Nú hefur fjölskyldan komið sér fyrir á H4 og þá notar fjölskyldufaðirinn tækifærið til að skrá skoðanir sínar á síðunni.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...img_102
  • img 075
  • laddi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband