Vestmannaeyjar - Eyþór Ingi og Magni

Gömlu rifu sig árla á fætur í morgun því Bergur Óli var að fara til Vestmannaeyja í skólaferðalag. Hann var að sjálfsögðu vaknaður á undan öllum öðrum og búinn í morgunsturtunni og sitthvað fleira þegar foreldraskammirnar dröttuðust á fætur. Síðan hélt hann sína leið. Glaður í bragði með gítar um öxl. Eyjapeyi í tvo daga.

Hjörtur Geir fór í þrælabúðirnar í Staðarskála kl. 3 og hófst þá sjoppuvaktin. Villa "the boss" var bara hin stilltasta í dag og sömuleiðis Bíbí mamma hennar. Sennilega var svo mikið að gera að það var ekki tími til athugasemda. Viti menn!! Helstu rokkkóngar Íslands um þessar mundir komu í skálann í dag og þáðu afgreiðslu hjá Hirtinum. Magni vildi sína pulsu með öllu nema hráum en Eyþór Ingi vildi hana með öllu, að sjálfsögðu. Þetta bjargaði deginum hjá sumum Cool 
Hjörtur mætir alltaf vopnaður til vinnu (með vasahníf að sveitasið) því það eru búin að vera svo mörg vopnuð rán í söluskálum í vetur!! Reyndar er ástæðan önnur. Hann kann nefnilega ekki á upptakarann í skálanum og notar því vasahnífinn til að opna flöskur fyrir kúnnana.

Síðan var bara að njóta kvöldsins við Idolið og vespurúnt. Á morgun kemur ný vinnuvika með nýjum verkefnum (eða veseni).

Yfir og út. ÞG


Dag í senn

Góður dagur er að verða genginn. Hann byrjaði með messu á Melstað, fámennt en afar góðmennt. Lesmessa - þannig að það var enginn kirkjukór. Við kyrjuðum af hjartans list. Pálina organisti var eitthvað sein með að velja sálmana og ég beið eftir að geta hengt upp númerin. Hún spurði hvort það væri einhver óskasálmur hjá mér og sagði ég að það væri þá ekki nema Dag í senn eða Son Guðs ertu með sanni. Hún sagði að þá væri tilvalið að setja Son Guðs sem lokasálm. Ég var nú hálft í hvoru að vonast eftir hinum sálminum, en sætti mig alveg við þessa ráðstöfun. Þegar messan var byrjuð fór ég að blaða í sálmabókinni og kíkja á hvaða sálmar væru líka. Viti menn. Sá sálmur sem hún var búin að velja var einmitt Dag í senn, þannig að ég var afar sæll með að báðir mínir sálmar höfðu ratað inn.

Í lok messunnar var mér afhent heljar bók sem þakklætisvott fyrir trúmennsku og vandvirkni í starfi fyrir kirkjuna. Síðan var kaffi að sveitasið. Frú Pedersen sló í gegn með marengstertu a'la Ingunn. Ekki að spyrja að því.

Nú er Bergur að taka sig til fyrir ferðalagið með 10. bekknum til Vestmannaeyja. Mikill viðbúnaður, útbúnaður og hvaðeina hjá drengnum.

Hjörtur er að fara að vinna á morgun frá 3-8. Barnaþrælkun!!! Hann var nú bara nokkuð sáttur með fyrstu vaktina en herra fullkomnunarárátta var nú eitthvað að velta sér upp úr því hvað þetta væri allt skrýtið og svo hefði Villa "the Boss" skammast yfir því að Lottó-kassinn hefði bilað og tók hann það eitthvað persónulega. Þetta minnti okkur á þegar Andri Már kom heim eftir fyrstu vaktina fyrir 6 árum síðan. Síðan gerðist hann starfsmaður númer eitt í skálanum og hallaði aldrei á það síðan.

Gaman að hafa þessa góðu gesti sem eru hjá okkur, nema hundkvikindið þeirra skeit á gólfið í vinnuherberginu í gær og það uppgötvaðist fyrst þegar eigendurnir voru gengnir til náða og ekki hægt að draga þau til þrifa Angry Því var einhver hundur í húsbóndanum yfir litla kjölturakkanum eða kæfuhundinum eins og Óli Pétur kallar hann.

ÞG


Heim í heiðarfjörðinn

Þá er maður kominn heim í Hrútafjörðinn, heim í þoku og kulda - inni sem úti !!

Gestir voru komnir í bæinn þegar ég kom heim. Óli Pétur, Helga Dóra ásamt 4 börnum þeirra og einu litlu kríli sem gegnir nafninu Pjakkur og er af smáhundakyni einhverju.

Framkvæmdirnar á H4 gengu bara nokkuð vel. Hillan er langt komin og stoppar helst á því að það þarf að taka úr plötu fyrir tenglum og rofum. Fram verður haldið næstu helgi, vonandi. Ásgeir mætti með gluggaefnið í dag og hyggst fara að smíða glugga á næstu dögum.

Setti inn myndir af hillunni margumræddu sem og húsinu sem er eins og það sé að afklæðast. Á morgun er mæðradagurinn. Hvenær er svo feðradagurinn???

ÞG


Slydda, hálka og sjónvarpshilla

Í dag, 9. maí 2008, var slydda í byggð í Hrútafirði og krap, þoka og hálka á heiðinni á leið minni suður. Stefnan var tekin á höfuðborgina til að byrja með. Aðeins útréttað þar og svo haldið suður með sjó. Andri var með matargesti (reyndar undir fölsku flaggi!!!, því hann fékk Hadda til að aðstoða sig við tengingu á rafmagni) svo ég kíkti á Unni og Ásgeir og fylgdist með Kópavogi vinna Reykjavík í Útsvari.

Húsið okkar er eiginlega að verða berrassað því það er byrjað að hreinsa af því og undirbúa það fyrir lagfæringarnar.

Svo var farið að saga parket og bera við sjónvarpshilluna. Andri sýndi mikla snilli við hönnun hennar. Reyndar tapaði ég mér aðeins þegar ég barði dýrðina augum því ég hafði hugsað mér þetta öðruvísi en hann sannfærði mig í rólegheitunum um hvað hans hugmynd væri miklu betri en mín Wink

Óvæntir gestir knúðu dyra. Nágrannar okkar Eygló Alexanders (hin eldri) og ömmustrákurinn hann Veigar Páll litu inn.

Í fyrramálið á svo að leggja (eða öllu heldur líma) parketið og vonandi tekst að klára verkið áður en ég skunda aftur heim í heiðardalinn. Von er á gestum á morgun, Óli Pétur og co. Ingunn er heima að taka til og hugsa um gauraganginn okkar þar. Hjörtur fer að vinna í Staðarskála í fyrsta sinn á morgun. Húrra fyrir því!

Nýjar myndir af sjónvarpshillunni eru komnar í myndamöppuna. Muna svo bara að kvitta eða skella inn athugasemdum.

ÞG 


Fimmtudagur til fjörs, föstudagur til ferða

Í dag er síðasti heili dagurinn í skólabúðunum í þessari viku. Hæ, hó, jibbí, jei og jibbí, je, jei.
Ég er einhvern veginn ekki í skólabúðastuði þessa dagana. Mikið að gera en hugurinn er helst á H4.

Strax og skólabúðingarnir renna úr hlaði á morgun ætla ég að setja undir mig Renault-fótinn og bruna suður á vit framkvæmdanna. Til stendur að parketleggja smávegis og gera sjónvarpsherbergið í kjallaranum klárt. Sennilega verður sitthvað fleira gert sem greint verður frá seinna. Ég verð einn á ferð því Bergur Óli er að fara á reiðnámskeið á laugardaginn og Hjörtur Geir ætlar að vera að vinna í Staðarskála í fyrsta sinn. Hann er með ógurlegar peningahugmyndir og finnst hann þurfa að fara að afla tekna.

Gunni og Marín komu í gærkveldi til skrafs og ráðagerða. Tilefnið er stóri dagurinn í lífi þeirra þ.e. 7. júní nk. Gunni kemst á fimmtugsaldurinn  og ætlar hann að ganga að eiga sína heittelskuðu Marín þann dag (loksins Gunni, loksins!!!).

Skemmtilegasta kvöld í langan tíma við spjall, bull og hlátur.

Í Opruh-þættinum áðan sagði Bill Cosby að "særðir særa aðra". Orð að sönnu

ÞG


Vorið er komið og þokan líka

Já það er ekki að spyrja að því að þegar útvarpsmenn keppast við að kjafta vor í hlustendur þá mætir þokan í Hrútafjörð. Stundvís eins og farfuglarnir. Í morgun var kaldast á Norðurlandi-vestra hér á Reykjum og á Gjögri á Ströndum. Við njótum þess reyndar að í morgunsárið er stillt og kyrrt veður en hitastigið er ekki til að hrópa húrra fyrir.

Vikan er hálfnuð og satt best að segja er ég hálf feginn. Er eitthvað latur og bíð eftir því að skunda suður á H4 næsta föstudag og koma einhverju í verk þar. Annars er Andri Már búinn að vera svo duglegur að undirbúa komu mína, smíðar og leggur fyrir rafmagni í kjallaranum. Hann lenti reyndar í einhverju útsláttarveseni svo núna hlýtur hann að bjóða Kollu frænku og hennar rafmagnaða sambýlismanni í mat svo hann geti dobblað Hadda í aðstoð með rafmagnið meðan Kolla eldar Wink

Ingunn er komin með morgunkaffið handa karlinum.

ÞG


Fátt er svo með öllu illt...

Í dægurlagatexta sem maður heyrði oft í gamla daga voru sungin þessi orð: Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.  Ég vil bara gera þessi orð að mínum. Það er bara hamingja hér á heimilinu í kvöld. Eins og lesa má í síðasta bloggi fórum við Bergur bara heim en Ingunn og Hjörtur urðu eftir í Njarðvík því nú átti Hjörturinn að fara á fund í Njarðvíkurskóla og svo í heimsókn á eftir. Það er fátt um þessa ferð að segja nema að honum var afskaplega vel tekið og þungu fargi af öllum létt, því eins og kunnugir vita hefur ákvörðunin um flutningana ekki verið einföld eða auðveld. Allra síst lillanum honum Hirti þvi hann er mjög sáttur í sínum bekk í sínum skóla. Hins vegar er hann mjög sáttur eftir þessa heimsókn í Njarðvíkurskóla og það þykir okkur foreldrunum hið besta mál. Það er nú bara svo að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Við munum með trega og söknuði kveðja æskuslóðir strákanna og halda á vit hins óþekkta í sollinum syðra. Við ætlum hins vegar að gera hið besta úr því sem að okkur verður rétt og hefja nýtt líf við nýjar aðstæður. Ávinningurinn er mestur í því að sameina fjölskylduna á nýjan leik. Við erum viss um að sumir verða dauðfegnir að losna við okkur af svæðinu en vonandi finnst einhverjum slæmt að missa okkur eftir 18 ára búsetu hér nyrðra.

Alla vega; Hirti Geir leist vel á skólann. Kom heim og brunaði á vespunni dágóða stund eftir kvöldvökuna og þuldi svo yfir föður sínum allt það sem hann ætlaði að velja í Njarðvíkurskóla næsta haust. Pabbi drakk hvítvín og hlustaði andaktugur á. Næsta sunnudag á að kveðja karlinn og þakka honum fyrir meðhjálparastörfin í Melstaðarkirkju sl. rúman áratug. Sómi að því.

Það er ótrúlega svæfandi að hlusta á sálmana hennar Ellenar og svefnhljóð frúarinnar.
Góða nótt.
Senn kemur sauðburður!!


Mörg er búmanns raunin

Þetta er nú speki sem á við um okkur gömlu hjónin eftir þessa helgi.
Fyrst skal telja að við fórum í afsal hjá Remax-Lind og borguðum síðustu greiðslu af húsinu okkar að H4. Píndum nytsamlegar upplýsingar upp úr Palla seljanda sem var einn á ferð því hans kvinna hún Helga var í Boston. Allt fór friðsamlega fram og allir sáttir. Myljandi hamingja á ferð með að vera orðnir löggiltir Reykjanesbæingar.

Fórum svo um kvöldið (þ.e. öll 10 manna stórfjölskyldan) á Sveppa og félaga í Þjóðleikhúsinu á Ástin er diskó, lífið er pönk og skemmtum okkur stórvel.

Á laugardeginum var undirritaður kominn á rúntinn um 8 leytið og við vorum lögð af stað í Reykjavík um kl. 9.  Fórum í Húsasmiðjuna og svo í IKEA þar sem skyldi kaupa skápa. Ég hef alltaf haldið að allt væri til í IKEA. Svo er nú ekki!! Við fengum bara brot af því sem skyldi kaupa og sumt var sett á bið og annað í pöntun þannig að sennilega verðum við flutt inn og búin að koma okkur fyrir þegar þessir hlutir verða komnir til litla Íslands frá stóra Svíþjóð. Settum svo saman skápinn hans Andra og reyndum að klambra upp skáphurðum hjá Bergi. Ingunn málaði kjallarann en ég var til lítilla stórvirkja því öxlin var í einhverri klessu og því lenti öll vinnan á móðurinni. Það leiddi til þess að hún fór í bakinu á sunnudagsmorguninn þegar aðrar fínar frúr skunduðu til messu. Því var mörg búmanns raunin hjá okkur. Bergur fór í hesthúsið með Kollu frænku í Sandgerði og endaði sú ferð með sár á læri (eða rassi) því Eydís merarskessa skellti honum í fóstujrörðina þegar hann ætlaði að handsama hana og beisla. Með réttu hefði mátt syngja sönginn um fatlafólið okkar fjölskyldu til heilla Wink

Á sunnudaginn vorum við frekar dugleg en kíktum svo í kaffi á Kirkjuteiginn. Svo var haldið heim á leið. Við Bergur fórum heim eftir að hafa lagað tölvuna hennar Stínu mágkonu sem hún hélt að tæki bara 5 mín. en tók 90 mín. Svona er þegar fólk er að tjá sig um það sem það þekkir ekki. Hitastigið fór úr 8 gráðum á háheiðinni niður í 3 gráður á Reykjaskóla. Vorið samt við sig.

Það sem eftir stendur eftir helgina eru 3 litir sem þarf að velja á milli til að tengja saman hæðir tvær á Hæðargötu númer 4.

Blessun sé með yður.

ÞG (skrifað uppi í rúmi með aldraða eiginkonu sér við hlið sem þjökuð er af bakverkjum og nefrennsli.

ps. Hamingja yfir nýja grillinu sem eiginkonan gaf eiginmanninum í fellihýsið hennar (kaldhæðnislegt ekki satt!!) 


Náttúrufræði og afsal

Langur dagur er að kveldi kominn.
Fjölskyldan er að undirbúa hraðferð til Reykjavíkur strax eftir skóla á morgun. Tilefnið er afhending afsals á H4 kl. 16.30 hjá Remax Lind. Í framhaldinu á að skunda í leikhús þjóðarinnar og svo suður í fasteignina. Fengum nokkrar góðar hugmyndir við það að horfa á Hæðina í kvöld og því á "aðeins" að versla í leiðinni.

Bergur Óli er að fara í náttúrufræðipróf í fyrramálið og var duglegur að læra fyrir það í dag .
Jákvæðni er hans mottó þessa dagana og svei mér þá ef það fleytir honum ekki í gengum þessa erfiðu skafla sem samræmdu prófin eru.

Andri Már var að vinna í dag í "Season"deildinni í Húsasmiðjunni og seldi víst heilan helling af dýrum grillum. Svo ætlaði hann að fara í bíó í boði Frímannsins.

Hlökkum til helgarinnar og sérstaklega mánudagsins því þá fara Ingunn og Hjörtur Geir á fund í Njarðvíkurskóla um valgreinar í 8. og 9. bekk næsta vetur. Svo ætlar Hjörturinn að prófa að setjast á skólabekk í nýjum skóla, í það minnsta fram undir hádegi  Smile

Enn er fátt sem minnir á vorið við Hrútafjörðinn.

Okkur langar að hvetja ykkur til að kvitta eða skrifa athugsemdir svo að við vitum hverjir eru á ferðinni í bloggheimum okkar.

ÞG+IP


Run to the hills

Þessi titill vísar í lagið sem lillinn okkar spilaði á vortónleikunum hjá tónlistarskólanum í dag. Lagið er með Iron Maiden (sem Ella tón bar fram eins og Jón Páll hefði gert) og trommaði Hjörturinn það óaðfinnanlega og spiluðu þeir Danni gítar og Benni Palli með honum. Þetta voru nokkuð stórir tónleikar og sennilega síðustu tónleikar okkar hér á þessu svæði.

Annars er búin að vera stíf norðanátt með bölv... kulda í dag. Svo hvasst var að léttustu nemendurnir voru á mörkum þess að fjúka í fjöruferðinni. Það var nú samt ekki svo hvasst að fullvaxnir karlmenn eins og ég hreyfðust neitt aukalega (sem betur fer!!).

Bergur Óli er búinn að taka tvö samræmd próf og segir að sér hafi gengið vel í þeim báðum. Við vonum að það reynist rétt, alla vega er mjög gott að halda í jákvæðnina og láta hana fleyta sér áfram. Næsta föstudag er svo náttúrufræðipróf hjá honum.

Núna er legið yfir Ikea bæklingnum sem kom í dag og skrifað niður allt það sem á að kaupa um helgina og hvað við feðgarnir eigum að afreka fyrst faðirinn þarf ekki að eyða meiri tíma í lokaritgerðina. Áður en við leggjumst í mikil afrek á H4 er fyrirhugað að "stórfjölskyldan" fari í Þjóðleikhúsið á Sveppa og félaga og sjái leikritið hans Hallgríms Helgasonar Ástin er diskó, lífið er pönk.

Setti myndir af Hirti Geir í trommu-sveiflu í myndamöppuna. Hann á eftir að ná langt á trommunum þessi strákur.

ÞG


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

H4-260

Höfundur

H4-260
H4-260

Nú hefur fjölskyldan komið sér fyrir á H4 og þá notar fjölskyldufaðirinn tækifærið til að skrá skoðanir sínar á síðunni.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...img_102
  • img 075
  • laddi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband