Æfingaleyfi

Nú er sennilega réttast að halda sig innan dyra. Í það minnsta þau ykkar sem eruð í Reykjanesbæ því Bergur Óli var rétt í þessu að fá æfingaleyfi til aksturs. Tounge

Smá grín. Engu að síður þá er drengurinn kominn með leyfið og fyrsti bíltúrinn að renna af stað. Fyrst skal halda upp á bílaleigu til mömmu gömlu með bráðhollan hádegismat að dönskum hætti.

Til hamingju Bergur Óli


1. vetrardagur

Þá er sumarið á enda runnið og kemur aldrei aftur. Kannski sem betur fer segja sumir. Hamfarasumar og hamfarahaust í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það virðist verða erfitt að draga til ábyrgðar þá sem tjölduðu stærstu seglunum og bárust mest á. Við hin, hinn sauðsvarti almúgi, megum axla byrgðarnar og greiða fyrir stærsta fyllerí Íslandssögunnar. Ef ég ætti þess kost þá myndi ég vilja flytja úr landi og hefja nýtt líf annarsstaðar. Ég þekki nokkra sem hafa komið sér vel fyrir í Noregi og Danmörku. Hver veit nema að þessi litla ósk verði að veruleika einn daginn.

Í gærkvöldi tapaði ég færslu sem ég var að skrá á síðuna. Hún fjallaði um upplifun mína við að vinna í frístundaskóla Myllunnar. Hvílík og slík upplifun. Gamli einræðisherrann og herforinginn skyldi ekkert í hamaganginum og agaleysinu sem ég held reyndar að hafi stafað af umgjörðinni og aðstæðunum sem þarna hafa verið skapaðar. Reyndar heyri ég að þetta sé ansi víða svona. Ég hef þá trú að það væri hægt að gera svo skemmtilega frístundaskóla víðs vegar ef rétt væri að staðið og sett upp umgjörð og prógramm sem væri í senn krefjandi og afþreyjandi fyrir þessi litlu skinn sem mega dúsa þarna meðan mamma og pabbi (ef hann er til staðar) klára vinnudaginn sinn.
Mikið skelfingar lán var yfir manni að þurfa aldrei að láta okkar stráka dveljast í svona gæslu. Reyndar vorum við með vísi að frístundaskóla í tvo vetur á Laugarbakka þegar Vilmar í Dæli og Magnús á Stóru Ásgeirsá fengu að vera hjá okkur eftir skóla á meðan þeir biðu eftir æfingum í íþróttahúsinu, þannig að við erum með smá reynslu af svona vinnu.

Í gær var hvíslað að mér að við hjónin ættum að taka að okkur fósturbörn eins og eina helgi í mánuði, vera nokkurs konar stuðningsfjölskylda fyrir þau. Kannski er þessi hugmynd ekki svo vitlaus. Ef um semst verður hún kannski skoðuð nánar, enda var ég að auglýsa eftir aukavinnu til að láta enda ná saman.

Gleðilegan vetur. Vona bara að hann verði ekki snjóþungur því ég er búinn með minn skammt af snjó og fjúki. Það er kannski þess vegna sem ég er svag fyrir að flytja úr landi Wink

 


Hvað gerir pabbi þinn ?

Nonni litli er í sjötta bekk grunnskóla.
Dag einn var samfélagsfræði og þá spurði kennarinn hvað feður þeirra störfuðu.
Börnin svöruðu eins og þeim er lagið: Pabbi minn er lögga, brunaliðsmaður, skrifstofumaður, vinnur í verslun og svo framvegis.
En kennarinn tók eftir því að Nonni litli var óvenju hljóður og lét lítið fara fyrir sér.
Hvað gerir svo pabbi þinn, spurði kennarinn Nonna litla.
Hann dansar nakinn fyrir framan karla á öllum aldri á veitingastað á kvöldin og á næturnar.
Svo græðir hann fullt á því að fara með þeim áhorfendum sem best bjóða út í portið á bak við veitingastaðinn þar sem hann dansar einkadans fyrir þá í nokkrar mínútur.
Kennarinn varð eðlilega mjög undrandi yfir svari Nonna litla og í miklu fáti skipaði hann hinum krökkunum að fara að lita, en Nonna litla tók hann afsíðis.

Er þetta alveg satt sem þú sagðir um hann pabba þinn ... Dansinn og allt það?
Nei, nei, sagði Nonni litli feiminn.
Pabbi vinnur hjá einum af bönkunum en ég þorði sko alls ekki að segja það fyrir framan hina krakkana.

Hvað er mikilvægast ?

Við fengum þessar vísur í tölvupósti frá góðum vinum okkar á dögunum og mér datt í hug að láta þær fljóta hér til uppörvunar þeim sem hingað læðast Smile

Gulli og perlum að safna sér,
sumir endalaust reyna,
vita ekki að vináttan er,
verðmætust eðalsteina.

Gull á ég ekki að gefa þér
og gimsteina ekki neina.
En viltu muna að vináttan er
verðmætust eðalsteina.

Höf: Hjálmar Freysteinsson
læknir og hagyrðingur á Akureyri.

Danska fósturbarnið

Danska fósturbarnið okkar hjóna hefur snarbætt hegðun sína. Húrra fyrir því. Það eru sem sagt gleðifréttir dagsins LoL

Sorgarfréttir dagsins eru þær að samdrátturinn sem skrifað var um í síðustu færslu er í vinnunni hjá IP. Bílaleigan er í aðhaldsaðgerðum og þarf að segja upp fólki og hagræða. Til þess að komast hjá fækkun starfsfólks á skrifstofunni er nokkrum gert að minnka við sig vinnuhlutfallið í 80%. Þetta kemur illa við okkur og varla er endalaust hægt að hagræða og spara. En við komumst í gegnum þetta samt. Með góðu eða illu. Í það minnsta erum við bæði enn í vinnu þó svo að um skerta sé að ræða. Við teljumst sæmilega heilbrigð (að okkar mati!!!) og eigum hvort annað, skjól yfir höfuðið og yndislega syni sem leggja sitt af mörkum til að við höldum haus. Þeir hafa reyndar verið að kljást við slappleika en mér sýnist að það sé að færast í rétt horf. Aldrei slíku vant var það Bergur Óli sem var ekki lasinn meðan hinir lágu.

Veturinn minnir á sig með kulda og éljagangi. Við létum það þó ekki fá á okkur heldur gengum ótrauð alla leið vestur í Gróf að sinna fósturbarninu og afþökkuðum meira að segja skutl heim hjá afmælisbarninu henni Unni.


Samdráttur

Vikan hefst með samdrætti. Samdráttarverkirnir koma aðallega fram í áhyggjum af buddunni á þessum síðustu og verstu tímum. 

Auglýsum eftir aukavinnu sem gefur vel af sér FootinMouth 

 


Í helgarlok

Í helgarlok er gott að líta yfir liðna viku um leið og maður leggur drög að nýrri.

Vikan er í heildina búin að vera mjög góð. Skipti á forfallabekkjum og líst vel á að vera kominn í 6. bekk. Góðir krakkar sem ég hlakka til að vinna með. Svo er líklegt að ég taki fyrr en áætlað var við hinum 6. bekknum ef kennarinn þeirra er að verða óvinnufær.

Við merkjum ekki mikil kreppueinkenni enn sem komið er. Kannski starfar það af því að við höldum mest til heima fyrir og lifum að mestu bara lágt. Skruppum reyndar í smá snúninga í höfuðborgina í gær og þar voru engin kreppueinkenni á þeim stöðum þar sem við bárum niður. Fólk var í óða önn að versla og skoða eins og oftast áður.

IP skrapp í vinnupartý í gærkvöldi. Þar voru samkomnir þeir sem starfa á þessum tveimur starfsstöðum hér suður frá. Eitthvað hefur samkoman vakið litla hrifningu því ég var látinn sækja frúna á kristilegum tíma, en þá var veislan bara rétt að byrja hjá sumum.

Í dag hefur verið gestkvæmt og gaman að fá fólkið sitt og spjalla og skiptast á skoðunum.

Nýja vikan leggst bara vel í mig og ég hlakka til að takast á við þau verkefni sem framundan eru. Mesti spenningurinn er að fá að vita hversu vel danska fósturbarnið hefur hagað sér í sl. viku.


Nokkrir í takt við tíðarandann

Breska blaðið Daily Mail hefur tekið saman það sem kalla má kreppubrandara til að létta aðeins geðið hjá fólki á þessum síðustu og verstu tímum. Hér eru nokkrir þeirra.

Hvernig skilgreinir þú bjartsýni í dag? Bankastarfsmaður sem straujar fimm skyrtur á sunnudegi.

Afhverju eru fasteignasalar hættir að horfa út um gluggan fyrir hádegi? Svo þeir hafi eitthvað að gera eftir hádegið.

Hver er munurinn á stjórnenda fjárfestingarbanka og dúfu? Dúfan getur enn sett mark sitt á Ferrari-bíl.

Fjármálakreppan hefur komið mér aftur á lappirnar. Það er búið að taka af mér bílinn.

Hvað segir þú við forstjóra vogunarsjóðs sem getur ekki selt neitt? Ég ætla að fá einn Big Mac með frönskum.

Heyrt á bar á Wall Street: “Þessi fjármálakreppa er verri en skilnaður. Ég haf tapað helmingi eigna minna en sit samt uppi með konuna.

Hver er munurinn á Robert Peston viðskiptaritstjóra BBC og guði? Guð heldur ekki að hann sé Robert Peston.

Maður kemur að máli við bankastjóra sinn og segist vilja stofna smáfyrirtæki. Hvernig geri ég það? “Einfalt,” segir bankastjórinn. “Þú kaupir stórfyrirtæki og bíður svo aðeins.


Back to the seventies!

5 vísbendingar um það að Ísland sé að sigla aftur inn í áttunda áratug 20. aldar
 
1.    
Óðaverðbólga
2.    
Gjaldeyrisskömmtun
3.    
Stríð við breta
4.    
Vinsælasta tónlistin er ABBA og Vilhjálmur Vilhálmsson
5.    
Forsætisráðherrann heitir Geir og er sjálfstæðismaður

Sesam opnist þú!

Að baki mér hljómar þessi setning reglulega: "Sesam opnist þú" því kennari bekkjarins sem ég er að kenna núna hafði lofað þeim að horfa á Ali Baba í lok skóladagsins þar sem þau höfðu nýlokið við að lesa söguna. Þetta eru þvílíkir erkienglar og vilja öll leggja sitt af mörkum til að koma mér sem allra best inn í starfið.

Það vær nú gott að geta haft slíkan töframátt eins og finna má í ævintýrunum og geta yfirstigið öll þau vandamál sem á manni dynja. Þegar ég var lítill var Skuggi uppáhaldsteiknimyndaserían mín. Skuggi var í Tímanum og gott ef ekki er þá er hann ennþá í einhverju blaðanna. Annars finnst mér gelgjan í Fréttablaðinu lýsa ástandinu heima hjá mér best Wink því þar eru kunnugleg viðfangsefni á ferð.

Ég var að pæla í að senda alla strákana okkar í box eða einhverja aðra bardagaíþrótt því þeir slást og fljúgast á öllum stundum og virðist sá máti vera orðinn þeirra húmor og samskiptamáti þeirra í milli. Allt í góðu engu að síður.

Svo er bara að visitera kjúklinginn á sjúkrahúsinu og halda svo glaðbeittur (blaðgeittur) inn í faðm helgarinnar.

Góða helgi Happy 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

H4-260

Höfundur

H4-260
H4-260

Nú hefur fjölskyldan komið sér fyrir á H4 og þá notar fjölskyldufaðirinn tækifærið til að skrá skoðanir sínar á síðunni.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...img_102
  • img 075
  • laddi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband