Uppsagnarbréf

Í okkar fjölskyldu fer það að verða hversdagslegt brauð að fólk sé beðið um að mæta ekki í vinnu sem það er ekki einu sinni byrjað í og að því berist uppsagnarbréf.

Hjörtur Geir er þó sá yngsti á þessu heimili sem hefur fengið uppsagnarbréf.
Pósthúsið segir honum upp blaðberastarfinu frá og með mánuði héðan í frá. Þetta er víst gert vegna skipulagsbreytinga og sparnaðar og á engan hátt að spegla frammistöðu hans, enda yrði hann þá æviráðinn Wink

Ekki er nú öll vitleysan eins!!!


Óborganlegar vísur

Þessar vísur bárust í tölvupósti í dag og létta andann í skammdegissuddanum hér á útnesinu.

Þessi gullvæga setning heyrðist við kvöldmatarborð frá einni á leikskólaaldri nýverið.
Dóttirin: "Var ég búin til í glasi eða ættleidd eða rídd?"

Sem er tilefni þessarar vísu


Úr hvaða efni er ég smídd,
af íslensku holdi eða þýdd?
Ég vita það vil
því víst er ég til.
Er ég ættleidd, úr glasi eða rídd?


Við spurningu barnsins svarar pabbinn svona:

Úr ágætis efn' ertu snídd
og kostunum bestu ertu prýdd.
En eitt máttu vita
ég vann mér til hita,
því á gamaldags hátt varstu rídd


Bakþankar

Ég hvet alla til að lesa bakþanka Dr. Gunna á baksíðu Fréttablaðsins í dag. Hann segir þar allt sem segja þarf.

Danska fósturbarnið

Jæja, það gengur aðeins betur með danska fósturbarnið og vonandi eru kílóin að fjúka með bættri hegðun þess. Aðalbreytingin er sú að IP hefur tekið yfir stjórnina og matseldina og mælir og vigtar nákvæmlega hvað má og hvað ekki. Það hvessir nú reyndar reglulega yfir þessu óskabarni dönsku þjóðarinnar en eins og í veðrinu þá lygnir nú alltaf fljótt aftur. Í Hrútafirði segja menn að þar sé ekki rok eins og margir vilja halda fram heldur fer lognið mishratt yfir. Sennilega er það þannig hjá okkur Wink

Dugnaðurinn í okkur ríður ekki við einteyming því við sprettum upp úr bælinu fyrir almennan fótaferðartíma og örkum með málgagn jafnaðarmanna í húsin í hverfinu. Svo reynum við að taka ark seinni partinn ef tími er til.

Þetta hlýtur að skila árangri, í betra skapi ef ekki vill betur.

 


Jákvæðni

Þessa dagana dynja á okkur speki misgáfulegs fólks sem dúkkar upp til að tjá skoðanir sínar á ástandinu. Ráðleggingar þessa fólks ganga út á að allir eigi að snúa bökum saman - eins og Stuðmenn sungu um forðum - og iðka jákvæða hugsun. Prestar, sálfræðingar, ráðgjafar, fyrrum stjórnmálamenn og allir aðrir sem einhvern tíma hafa verið málsmetandi leggjast nú á eitt að predika yfir landanum svo hann örvinglist ekki í ölduróti fjármálaheimsins. Í dag heyrði ég að við ættum að horfa til framtíðar og þannig sæjum við að hægt væri að komast í gegnum alla erfiðleika. Samt vitum við öll að það eru ekki allir sem komast í gegnum erfiðleikana. Þeir eru sumum einfaldlega ofviða FootinMouth

Á bloggrölti mínu um daginn, meðan ég var atvinnulaus og hafði allan heimsins tíma í að gera ekki neitt, rakst ég á bloggið hennar Huldu systur, eins og hún var jafnan kölluð heima hjá okkur þegar við bjuggum á Laugarbakka. Hulda er systir hennar Herdísar fyrrum nágrannakonu okkar og vinkonu. Hulda heldur úti bloggi þar sem hún ætlar eingöngu að blogga um jákvæða hluti í lífinu. Þetta var fyrir hrun alheimsins þannig að hún hefur bara verið svona framsýn blessunin. Ég vil taka það fram að ég þekki þessa Huldu ekki neitt nema af umtali systur hennar.

Ég ætla að taka Huldu systur mér til fyrirmyndar og leitast við af öllum mætti (eins og segir í fermingarheitinu) að finna jákvæða hluti til að blogga um.

Danska fósturbarnið er ekki alveg að sýna óskahegðun og ljóst að við hjónakornin verðum að grípa til enn meiri nákvæmni í fyrirmælum og eftirfylgni Wink


Sjálfhverfni fólks

Eitt af því sem pirrar mig í samskiptum við fólk er sjálfhverfni þess. Í gegnum árin er eins og ég hafi laðast að sjálfhverfu fólki. Kannski er ég líka svona sjálfhverfur án þess að sjá það sjálfur, hver veit?

En alla vega þá má ég til með að koma með dæmi máli mínu til stuðnings. Eins og ég hef verið að rekja hér á síðunni þá hef ég gengið í gegnum ákveðið ferli í atvinnuleit og upplifað hafnanir í þeim efnum. Stærsti skellurinn var fyrir rúmri viku þegar ég fékk upphringinuna upp í bústað þar sem mér var tjáð að ég þyrfti ekki að mæta í vinnuna sem rétt svo var búið að ráða mig í. Þetta hefur setið svolítið í mér og ég átt erfitt með að kyngja þessari höfnun þó svo að viðkomandi viðráðendur hafi sennilega góðar og gildar ástæður fyrir þessu. Nú, engu að síður þá var ég spurður út í atvinnumálin á föstudagskvöldið í góðra vina hópi. Ég ákvað að gera nú ekki of mikla dramatík úr þessu heldur bara segja frá þessu eins og það var, því þessi mál eru hjóm eitt miðað við það sem er í gangi hjá mörgum þessa dagana. Þegar ég var rétt að byrja að segja frá þessari meðferð þá grípur ein góð kona fram í fyrir mér og segir: Þetta er eins og með bróður minn.... svo kom svaka romsa um það í hverju bróðir hennar, sem enginn viðstaddra þekkti, hafði lent í fyrir ári síðan. Þar með dó þessi auma umræða og eftir sat ég með orð á vörum um það að ég væri nú samt sem áður svo heppinn að vera kominn með vinnu við kennslu. En þau orð dóu bara þar sem þau fæddust.

Ég get nefnt fjömörg svona dæmi um það hversu margir hafa lent í miklu verri hlutum en aðrir og sumir virðast alltaf fá verstu flensuna, tapa mestu, eiga erfiðast og svo framvegis og svo framvegis.

Héðan í frá ætla ég að hætta að pirra mig yfir þessu. Ég ætla að snúa blaðinu við og hlægja að þeim sem hafa þennan sið og passa mig að lenda ekki í þessu sama Wink


Í lífsins ólgusjó

Í þeim ólgusjó sem einkennt hefur íslenskt þjóðlíf síðustu daga er gott að finna sér nóg að gera. Best er að finna verkefni sem fjölskyldan getur unnið saman. Við fórum eftir þessu í dag og ruddum út úr bílskúrnum og inn í hann aftur. Árangurinn varð full kerra af drasli, fullur bíll af flöskum og dósum og hreinn og fínn bílskúr sem hægt er að ganga um. Markmiðið var að gera skúrinn svo fínan að við gætum sett fjölskyldubílinn inn þegar illa viðrar en það vantar herslumuninn á því reiðhjólið og vespan taka sitt pláss.

Svo er búið að raka laufi af pallinum, undirbúa niðursetningu heita pottsins, baka marengstertur og sitthvað fleira fyrir tengdóið í Mosó sem ætlar að halda upp á 40 ára brúðkaupsafmælið á morgun með vinum og vandamönnum. Ótrúlegt hvað þetta endist hjá foreldrum okkar Wink Við erum reyndar hálfnuð upp í þennan aldur, því næsta sumar ætlum við að fagna 20 árum, ef Guð lofar og íslenskt efnahagslíf kemst aftur á rétt ról. Þá verður sko gleði.

Fréttir af vinnumálum eru þær helstar að ég er búinn að ráða mig í Myllubakkaskóla til vors. Fyrst um sinn verð ég í afleysingum en svo tek ég við 6. bekk þegar kennari þeirra fer í fæðingarorlof. Maður getur víst bara þakkað fyrir að fá vinnu eins og ástandið er þessa dagana.

Annars gengur bara vel á danska kúrnum sem er að verða sameiginlegt fósturbarn okkar hjóna og það sem fær mesta athygli og umræðu þessa dagana. Á mánudaginn kemur svo í ljós hverju þessi vika hefur skilað í þyngdartapi. Hvernig sem það fer þá erum við búin að vera ótrúlega dugleg og einbeitt. Enda líður okkur vel af þessu sífellda grænmetis-, ávaxta-, vatnsdrykkjunarti.

Verið góð hvert við annað og munið eftir smáfuglunum Tounge


Bloggleti

Kvartanir hafa borist undirrituðum vegna bloggleysis á þessari síðu.

Sannleikurinn er bara sá að ég hef engan veginn verið í neinu bloggstuði síðustu dagana. Það sem veldur þessu óstuði eru svik sem væntanlegir/fyrrverandi vinnuveitendur gerðu mér sl. laugardag.
Ég sem var bara í góðum gír að grilla uppi í sumarbústað fékk símtal frá þjónustustjóranum þar sem hann greindi mér frá því að hann gæti ekki staðið við ráðninguna frá því á hádegi á fimmtudag þegar hann handsalaði hana við mig. Hann gat að sjálfsögðu talið upp fjölda ástæðna fyrir þessari ráðstöfun sem hljómuðu ekki mjög vel í mín eyru. Kannski var ég bara svona neikvæður??? Hann sagðist heldur ekki getað staðið við aðrar ráðningar sem hann hefði framkvæmt og að þessi tilskipun kæmi að ofan.

Það þarf ekki að spyrja að því að enn einn ganginn hrundu himnarnir yfir mig líkt og Aðalrík forðum í Ástríki og Steinríki. Þessi frábæra sumarbústaðaferð var allt í einu orðin að vonbrigðaferð. Ég sem var svo ánægður með þessa ráðningu og þau orð sem þeir höfðu látið falla í minn garð. Snöggt skipast veður í lofti á þessum síðustu og verstu tímum. Það var huggun harmi gegn að vera umvafinn góðum vinum og fjölskyldunni.

Á mánudagsmorguninn hafði ég svo samband við Steinar aðstoðarskólastjóra í Myllubakkaskóla og lét hann vita af því að ég væri á lausu og hann greip útrétta hönd mína samstundis og því er ég í kennslu þessa dagana fyrir Gumma Steinars sem fór út með landsliðinu. Svo tekur við meiri kennsla ef ég vil. Stjórarnir í Myllu hafa boðið mér ráðningu út veturinn og er ég að hugsa málið því mig langaði að vinna við eitthvað allt annað en þetta. En kannski er það bara málið að stökkva á kennsluna þar sem ekki er um auðugan garð að gresja í vinnumálum og þjóðarskúta alveg að fara í hliðina.

Það eina sem ég velti fyrir mér með bílaleiguna er að í morgun þegar ég keyrði mína heittelskuðu í vinnuna þá sat í afgreiðslunni drengurinn sem var ráðinn um leið og ég og virðist sem ekki hafi verið þörf á að ganga á bak ráðningu hans, nema þeir eigi bara líka eftir að skjóta hann í bakið.

Enginn veit sína ævina fyrr en öll er stendur einhversstaðar. Jákvæðnin hefur sem sagt ekki verið að þjaka mig sl. daga og margt þotið á leifturhraða í gegnum hausinn á mér til að leysa þessi atvinnuvandræði og hafa nægar tekjur til að geta framfleytt mér og mínum.

En koma dagar og koma ráð. Við erum alla vega ánægð með að IP heldur sinni vinnu þó svo að hinir háu herrar vilji ekki sjá hennar ektamann í vinnu hjá sér.

Allt er þegar þrennt er. Ég er nú þegar búinn að fá tvær hafnanir frá þessu fyrirtæki. Ég held að ég sé nú ekki svo heimskur að ég reyni aftur til að fá eina höfnunina enn Frown því ég er ekki mikið fyrir kvalalosta (BDSM)

Yfir og út!


Í tilefni dagsins

Í tilefni dagsins tilkynnist það hér með að kallinn er búinn að ráða sig í vinnu. Húrra, jibbí, sjúket, yes, það var mikið, great og allt það fór í gegnum huga minn þegar ég var búinn að handsala ráðninguna við Snorra þjónustustjóra Alp.

Ég er semsagt búinn að ráða mig í afgreiðslustarf hjá Alp bílaleigu sem rekur Avis og Budget. Starfsstöðvarnar eru tvær, í flugstöðinni og í húsi fyrirtækisins rétt norðan við flugstöðina (undir IP!!)

Byrja á mánudagsmorguninn kl. 05:00 árdegis og verð á 12 tíma vöktum. Líst bara vel á og er þakklátur fyrir að hafa fengið vinnu svona á síðustu og verstu tímum.

Ég klikkaði reyndar alveg að senda inn umsóknir til Glitnis, Eimskips, Stoða og annarra álíka vel stæðra fyrirtækja.

Wizard    

Stóra tilefnið í dag er hins vegar ekki ráðningin mín heldur afmælisdagur ljúflingsins Bergs Óla miðjubarns. Hann er 16 ára í dag þessi öðlingur og hyggst eyða deginum í skólanum og í feitum faðmi fjölskyldunnar (hann er jú víst ennþá eina mjónan hér á bæ - en það gæti nú breyst, hver veit).

Innilega til hamingju með afmælið Bergur okkar.


Sitt sýnist hverjum

Mörg spakmæli eru til sem innihalda það sama og ofangreind fyrirsögn. Í fréttum þessa dagana má lesa þetta spakmæli út úr mörgum fyrirsögnum þeirra. BB og lögreglustjórinn tala algjörlega í kross um samskipti sín á undanliðnum árum. Davíð og Geir hafa eina sýn á þjóðnýtingu Glitnis (Skitnis) en Jón Ásgeir og félagar hans hafa aðra sögu að segja af sama atburði. Það er alveg á hreinu að það sem gerist í reykfylltum bakherbergjum (vitnað í skemmtikraftinn og snillinginn Guðna allsherjargoða Ágústsson) kemur sjaldnast óbrenglað fyrir almennings sjónir.

Ég held að í þeim ólgusjó sem virðist geysa í þjóðlífinu um þessar mundir sé hverjum manni réttast að fara hljóðlega og hafa hljótt því æsifréttamennskan ríður ekki við einteyming og kappið er svo mikið að missagnir og mistúlkanir spilla fyrir einföldum samskiptum.

Forsíðuslagorðin eru líka eitt sem pirrar mig. Hvað varðar mig um það hvort einhverjir af svokölluðu fræga og fína liði sé að skilja og mér finnst fáránlegt að kenna kreppunni um það.

Eiður Smári fékk jet ski frá frúnni - og hvað með það. Ekki hef ég fengið jet ski frá minni frú en uni bara samt glaður með mitt og ekki síst með frúna. Sveinn Andri með six pack í sundi!!! Frábært hjá honum en hvað káfar það upp á okkur hinar feitubollurnar??? Ásdís Rán með æxli í móðurlífi - aumingja hún verð ég bara að segja. En það sama á við um fjölmargar aðrar konur á landinu sem ekki hafa ratað í forsíðufréttir en hafa drýgt sínar hetjudáðir hljóðar og án þess að bera þær á torg.

Er ekki að verða komið nóg???


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

H4-260

Höfundur

H4-260
H4-260

Nú hefur fjölskyldan komið sér fyrir á H4 og þá notar fjölskyldufaðirinn tækifærið til að skrá skoðanir sínar á síðunni.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...img_102
  • img 075
  • laddi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband