Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
16.9.2008 | 15:36
Persónulegar vangaveltur
Þegar maður hefur búið í dreifbýlinu í mörg ár venst maður því hvað allt er persónulegt og oft á tíðum vinalegt þar. Vinnustaðir eru persónulegir, það er persónulegt að fara í Kaupfélagið og það er svo vinalegt að hitta brottflutta aftur í heimahögum. Þessi persónulegheit og vinalegheit geta að sjálfsögðu haft ókosti, en ég tel að þeir séu mun færri heldur en kostirnir. Þetta á sér að sjálfsögðu skýringar. Allt er smærra í sniðum og allir þekkja alla. Skólarnir eru smærri, verslanirnar eru færri og smærri og bankinn að sama skapi einnig.
Það var að sjálfsögðu viðbúið að maður þyrfti að venjast því að hér syðra sé ekki allt eins persónulegt, enda allt stærra í sniðum. Engu að síður þá sakna ég þess að vera einn af þeim sem þekkir flesta sem ég hitti í mínu daglega lífi og bjóða þeim sem ég hitti góðan daginn. Með öðrum orðum ég sakna þess að vera stór fiskur í lítilli tjörn.
Sökum þess hvað ég er gamaldags og mikil landsbyggðartútta þá þráast ég við að bjóða fólki góðan daginn og nikka til þeirra sem verða á vegi mínum hvort sem þeir taka undir kveðjuna eða ekki.
Lifi landsbyggðin.
15.9.2008 | 13:18
í framhaldi af heilsubresti
Þegar ég var búinn að skrifa þessu löngu pælingar um heilsubrest (sem sennilega er ekki til í fleirtölu eins og ég notaði heldur eingöngu í eintölu) hélt ég austur í Þingvallasveit með pabba til að ná í gangnamanninn okkar.
Dagurinn fór að nokkru leyti í bið eins og vaninn er í kringum smalamennskur en svo hittum við drenginn. Þegar safnið hafði runnið inn í Arnarfellslandið héldum við í átt að Mjóanesi, sem er að mínu mati fallegasti staður á landinu - í það minnsta. Áður en við komum að afleggjaranum heim að bænum sáum við hóp af kindum sem undu glaðar við sitt í kjarri og á berjamó. Þetta fannst mér að ekki væri hægt að una við. Stökk út úr bílnum og réðst til atlögu við rollurnar ásamt Hirti. Við sem sagt smöluðum hraunið eins og sagt er. Ekki svo að skilja að ég hafi haft útbúnað meðferðis til smalamennsku eða verið við nógu góða heilsu. Maður gleymdi bara stund og stað og hélt léttur í spori, glaður í lundu og með svitatár á vöngum eftir safninu sem smám saman stækkaði. Mikið djö... er mosinn mjúkur þarna. Ég sökk í hverju spori og þau urðu þyngri og þyngri. Andardrátturinn varð líka örari og örari. Hjartað sló líka hraðar og hraðar. Ég sá í hyllingum að pabbi yrði að kalla til TF-LIF til að sækja mig, en sennilega myndi það ekki gerast í bráð því ég var símalaus og kallið kæmi ekki fyrr en allir væru komnir til byggða og einhver myndi sakna mín. Slíkar voru hugsanir mínar. Allt þar til ég sá almennilega yfir hraunið og vatnið í framhaldi af því og svo gufustrókana á Nesjavöllum. Þá var sem mér væri blásið í brjóst og hjartað náði réttum takti, sporin urðu léttari og svitinn þornaði á kinnum mér. Þvílík fegurð. Þvílíkar minningar helltust yfir mig frá því að ég fyrst kom á þennan stað fyrir réttum 30 árum. Aumingja Hjörtur fékk sögustund í boði pabba gamla.
Þegar heim var komið beið mannskapsins heitur matur og einstaklega góðir kanilsnúðar ala Rósa frænka. Ég er nú samt alveg viss um að hún setti ekki svona mikinn glassúr á þá í gamla dag.
Góður dagur. Fullt af góðum minningum. Þreyttur kom ég heim og naut aðhlynningar frú Pedersen sem hafði staðið í stórþvotti allan daginn.
Takk fyrir lesturinn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.9.2008 | 10:48
Heilsubrestir
Fjölmargir í kringum mig eru að glíma við heilsubrest af einhvers konar tagi núna um þessar mundir.
Á fimmtudag fór ég með mömmu til að kíkja á afa gamla sem er á Landakoti og er vægast sagt óhress með að heilsan sé að svíkja hann. Á heimleiðinni ræddi mamma um það að fyrstu 80 árin hefði heilsan hans afa verið mjög góð ef undan eru skyldar hjartaþræðingar sem hann hefur farið í. 80 ár með góða heilsu!! Er annað hægt en að vera þakklátur fyrir slíkt lán?
Eitt af mottóum afa á þessum erfiða tíma (og hefur kannski alltaf verið) er að þetta gæti nú verið verra. Þetta er gott mottó og heldur í þá jákvæðni sem þörf er á þegar heilsubrestur verður.
Mamma er nú ekki alveg laus við heilsubrestinn þessar vikurnar. Brákað rifbein og millirifjagigt hrjáir hana nú. Reyndar er nú sitthvað fleira að knýja á dyrnar en mottóið á Kirkjuteignum er að vera ekki að væla um þessa hluti út í eitt. Það mun ekki lækna neitt eða bæta ástandið. Sama saga er með pabba. Þegar maður spyr hann um það hvernig hann hafi það þá er alltaf sama svarið á takteinunum - ég hef það bara gott.
Mikið óskaplega vildi ég að ég hefði erft þessi gen frá foreldrum mínum að sama hvernig ástandið er þá hafa þau það bara gott og þetta gæti verið verra eins og afi segir.
Í minni fjölskyldu er ýmiss konar gigt og iktsýki að hrjá fólk. Tvö af yngri systkinum mínum, fólk á besta aldri (þ.e. yngra en ég ) þjást af gigt og er barátta þeirra við þennan illskeytta og dulda sjúkdóm aðdáunarverð. Lyf og aðrar meðferðir við þess konar sjúkdómum eru tilviljanakenndar og oft á tímum einnig tilraunakenndar.
Tengdóið mitt er nú heldur betur búin að fá sinn skammt af heilsubresti, blessunin. Yfir tuttugu ára barátta við afleiðingar alvarlegs bílslyss hefur sett mark sitt á hana og haft afleiðingar sem ekki allir vilja viðurkenna í formi annars konar heilsubrests og vesenis. Núna nýlega lauk hún hetjulega við 15 mánaða baráttu og lyfjameðferð við brjósta- og álagskrabba og gerði það með glæsibrag . Það sem mér finnst standa upp úr eftir þennan erfiða tíma er það hversu jákvæð og skynsöm hún náði að vera allan tímann og hversu dugleg hún var að nýta sér þann stuðning sem henni bauðst - bæði frá heilbrigðiskerfinu og aðstandendum og vinum. Húrra fyrir henni.
Svo verða menn fyrir ófyrirséðum slysum líkt og Kalli Örvars sem sleit og krambúleraði á sér öxlina rétt fyrir skólabyrjun þannig að hann verður úr leik næstu mánuði. Þetta slys var hvorki planað né fyrirséð frekar en aðrir sjúkdómar og slys, en hefur engu að síður afdrifamiklar afleiðingar.
Í blöðunum lesum við þessa dagana fréttir af sjúkdómsbaráttu Ellu Dísar við óþekktan sjúkdóm og helsta fréttaefnið er hversu dýr meðferðin er í Bandaríkjunum og hvernig greiða eigi fyrir hana. Bati stúlkunnar og vegferð fjölskyldunnar skipta minna máli í fréttaflutningnum. Fjölmiðlarnir ætluðu líka vitlausir að verða yfir því að reikningar vegna sjúkrahússlegu fyrrverandi forsetafrúar höfðu sennilega, ef til vill og kannski verið greiddir af forsetaembættinu eða opinberum aðilum. Það var látið í það skína að þarna væri grámygla á ferð og reynt að búa til æsifréttir sem selja blöðin og um leið auglýsingar í þau. Leyfið hinum látnu að hvíla í friði.
Upphafið að þessu bloggi var mín eigin sjálfsvorkunn . Samviska mín eða undirvitund leiddi svo hugsanir mínar að því hvort ástandið á minni heilsu væri svo slæmt miðað við aðra í mínum innsta ranni. Ég, eins og svo margir aðrir, verð svo upptekinn af eigin vanlíðan og erfiðleikum. Ég verð svo sjálfhverfur að ég sést ekki fyrir. Samt er það svo að mér leiðist alveg ferlega mikið sjálfhverft fólk, en fjölmargir sem ég hef eytt sl. árum með eru einmitt mjög svo sjálfhverfir og uppteknir af því hvað er í gangi í þeirra lífi þannig að þó svo að þeir þykist bera umhyggju fyrir náunganum og elski hann og virði þá leyfa þeir viðkomandi aldrei að klára setninguna um það hvernig þeir hafi það því þeir sjálfir hafa það svo miklu verr, eru miklu veikari, lentu í miklu verri aðstæðum, eru miklu blankari og svona mætti lengi telja. Taki þeir það til sín sem eiga
Í þessum pistli ætla ég ekki að hætta mér út á hála braut umfjöllunar um geðsjúkdóma hvers konar. Það er efni í aðra eins langloku að hætti Sóma samlokugerðar. Hættan við þann pistil er kannski mest að hann yrði of persónulegur, í það minnsta fyrir þann sem skrifar...
12.9.2008 | 13:05
Leiðbeinandaleiðindi
Síðustu tvo daga hef ég verið að leysa af í Myllubakkaskóla. Þar er ég sem sagt aftur orðinn leiðbeinandi við grunnskóla . Nokkuð sem ég ætlaði mér ekki að gera aftur. Það var svolítið fyndið hvað margir héldu að ég væri að fara á taugum yfir því að vera að fara að kenna þarna. Ég hef kennt meira og minna í 18 ár og ætti að vera kominn með smá reynslu - skyldi maður ætla. Alla vega þá gekk þetta bara vel. Blessuð börnin ætluðu náttúrulega að reyna nýja kennarann, eða kallinn eins og einn kallaði mig í morgun , en komust all snarlega að raun um að hann kunni nú betur en svo á kennsluna og viðmótið sem þau fengu var eins og hjá harðsvíruðum kennara með margra ára raunir á bakinu.
Systir mín góð er með forsjá með mér og fullyrtu skólastjórnendur að ég gæti ekki verið í betri höndum (eins og það séu einhverjar fréttir fyrir mér) og passar hún upp á hvert skref sem ég tek í þessum ranghalaskóla. Unglingarnir voru mun stilltari í dag en í gær enda búin að finna hver ræður í stofunni þegar ég er þar.
Bergur er að fara í göngur á Þingvallaafrétt með Mjóanesfólkinu, rétt eins og karl faðir hans gerði einu sinni fyrir 27 árum. Vona bara að hann upplifi ekki sömu lífsreynslu og ég forðum daga og að allt gangi vel hjá þeim félögum honum og Gutta.
Helgin á svo að fara í rokk og rólegheit og ná aftur upp fullu þreki og heilsu
Góðar stundir.
10.9.2008 | 19:19
Hann á afmæli í dag
Hjörtur er 14 ára í dag. Stefnir í smá kaffi eftir kveldskattinn.
Skrapp í Rvk í dag með mömmu til að heimsækja afa gamla sem núna dvelst á Landakoti. Mér fannst sá gamli ekki vera mjög sáttur með að þurfa að dvelja á þessu koti en við það verður ekki ráðið þegar menn hafa misst heilsuna.
Annars er það tíðinda að ég er að fara að kenna á morgun í Myllubakkaskóla í forföllum fyrir frú Westmann. Sennilega verður það sögulegt því ég hef bara kennt sárasaklausum sveitabörnum í grunnskóla og í skólabúðunum hafði ég tögl og hagldir. Kemur bara í ljós. En eins og Brynja skólastýra sagði þá verð ég í öruggum höndum Unnar systur minnar sem á að hafa forsjá með leiðbeinandanum. Sennilega kemur þetta í veg fyrir að ég bilist á heimasetunni.
9.9.2008 | 09:39
Og det regner
Í fréttum er það helst að það rignir stanslaust þessa dagana. Blöðin á morgnana eru orðin holdvot þegar þau rata inn um bréfalúgurnar og ekki þurr þráður á blaðberunum sem rísa árla úr rekkju til að þjóna Pósthúsinu sem fær ekki háa einkunn hér á heimilinu.
Ljósanótt var skemmtileg og fjöldi flottra atriða og sýninga sem við kíktum á. Karlakór Keflavíkur sló í gegn að mínu mati. Skemmtileg lög og léttleikandi kórinn mjög þéttur og náði að vera angurvær og allt upp í groddalegir þegar það átti við. Skyldi ekki vanta 1. tenóra í þennan kór? Aðrir kórar voru ekki allir svona flottir og skemmtilegir. Í suma vantaði stjórnendurna og bar þá söngurinn fullkomlega þess vitni. Ég hef að öllu jöfnu ekki gaman af kvennakórum því þeir virðast flestir ganga út á það að kreista skræki út úr hæstu röddinni þannig að sem um kattarbreim sé að ræða. Þessi lýsing á alls ekki við um Kvennakórinn í Keflavík. Flottur tónn og agaður kór sem unun er að hlýða á.
Áframhaldandi atvinnuleit.
Það er svo fyndið (eða kannski sorglegt) að fjölmargir, jafnvel í mínum innsta ranni, forðast að ræða og spyrja um þetta tímabil sem er í gangi í lífi mínu. Stinga bara hausnum í sandinn og reyna að hafa önnur umræðuefni á takteinunum og í mesta lagi stynja upp að það hljóti eitthvað gott að fara að detta inn á borð hjá mér. Aðrir segja mér að mér sé ætluð góð vinna sem ég verði bara að sjá fyrir mér og enn aðrir spyrja hvers vegna ég fari ekki bara að kenna!!!
Engu að síður þá finnst mér vænt um það að fólk hafi trú á mér og að það hafi trú á að okkur séu ætlaðir einhverjir hlutir í lífinu, en ekkert af þessu greiða reikninga heimilisins sem hrannast upp um þessar mundir. Ég ætla að reyna að muna að bera mig mannalega og vera ekki að kvelja þetta fólk með of miklum upplýsingum um mína hagi og þá sérstaklega atvinnuhagi. Ekki má gleyma því að ég er í vinnu hjá Hirti Geir við blaðaútburð. Ólaunuð vinna að vísu en hvetjandi í rigningu og roki Suðurnesjanna
Ég held að á þeim 18 árum sem ég bjó fyrir norðan hafi aldrei og þá meina ég aldrei rignt svona mikið á fáum dögum enda væru húsin á Reykjaskóla þá ekki lengur 8 bala heldur 80 bala.
Deginum verður eytt í atvinnuleit, tiltekt, heimilisstörf og fleira álíka skemmtilegt.
Góðar stundir
5.9.2008 | 12:11
Nótt ljósanna
Þá er bæjarhátíðin Ljósanótt hafin með pompi og prakt. Kíktum á nokkra listviðburði í gærkveldi og enduðum á að hlusta á Breiðbandið í gamla HF sem nú heitir Svarta pakkhúsið. Þar var einnig listsýningin Órói og virtist mér sem að allar gamlar skessur bæjarins séu farnar að klína málningu á striga og kalla sig listamenn og konur. Ein gömul vinkona átti nokkrar myndir þarna og átti ég auðvelt með að þekkja hennar myndir úr, því þær voru í sterkustu litunum - rétt eins og listakonan.
Enn er verið að sækja um störf og allt í góðu með það. Húrra fyrir þv í að ég fór í tvo tíma í Kennó í vikunni og núna getur Unnur systir mín góð verið stolt af mér. Hún lét mig nefnilega heyra það í fyrra að það þýddi nú ekkert að vera í háskólanámi en mæta aldrei. Batnandi manni er sennilega best að lifa.
Við ætlum að njóta hátíðarinnar og höldum í hefðir sem hafa skapast á undanförnum árum. Hittum gamla og nýja vini og svörum spurningaflóði um búsetu, flutninga og atvinnuleit .
Hins vegar ætlar Andri að halda heim á leið í réttir (eins og hann segir sjálfur) og að sjálfsögðu togar réttarballið í okkar mann.
Gleðilega Ljósanótt og gangið hægt um gleðinnar dyr.
2.9.2008 | 08:49
Ný vika - ný verkefni
Þessi vika hófst með nýjum verkefnum hjá Ingunni sem mætti gallvösk í nýju vinnuna hjá Avis í gærmorgun. Mér heyrist að henni lítist bara vel á sig þar. Strákarnir fóru í skólann skv. venju og ég lika því ég þvældist milli kvenna í Kennó í gærmorgun. Skráði mig í áfanga og ætla að mæta í tíma (svona til tilbreytingar!!) á eftir.
Mikil vonbrigði með atvinnuviðtal í gærmorgun. Heimurinn hrundi og himnarnir með. Sennilega gera þessir menn sér ekki grein fyrir af hverju þeir eru að missa. Skrái mig á atvinnuleysisbætur, örorkubætur, offitubætur, vonbrigðabætur og vonleysisbætur ef ekki fer að rætast úr. Reyndi að ástunda jákvæðni og hugsa ekkert neikvætt, bíbb, að hætti Óla Stef en sennilega þarf ég að æfa mig eitthvað betur til að nálgast sifrið í atvinnuleitinni
28.8.2008 | 22:30
Sumt breytist ekki
Þetta datt mér nákvæmlega í hug í dag þegar ég fór með Hirti í sund í Njarðvíkursundlaugina. Þangað hef ég ekki komið í yfir 20 ár. Það kom mér gjörsamlega á óvart að sjá að þar er allt óbreytt. Klefarnir og laugin eru enn þá jafn lítil og allt jafn snyrtilegt og það hefur alltaf verið. Heitu pottarnir vöktu líka upp gamlar minningar.
Fyrsta haustlægðin er yfirvofandi og það er busaballið líka. Bergur var busaður í dag. Við IP og MK ehf. kíktum á atganginn og rifjuðum upp þegar við vorum líka látin kyssa fiskhausa og innbyrða lýsi. Mér finnst reyndar að þetta hefði mátt breytast og þróast á þeim árafjölda sem liðinn er síðan ég tók þátt í slíkri athöfn, nauðugur viljugur. Það er að sjálfsögðu spenningur fyrir busaballinu sem verður haldi í Offanum uppi á Velli og þar munu Daltonbræður spila fyrir dansi.
Andri lætur sér fátt um finnast enda orðinn svo veraldarvanur finnst honum. Hann skundaði í bæinn og tók hús á fólki. Vona að hann skili sér heim áður en veðrið skellur á.
Rsk á morgun og svo familydinner med The Pedersen family í Fellsásnum annað kvöld þar sem fagna á því að tengdó hefur lokið lyfjameðferðinni. Húrra fyrir því
27.8.2008 | 19:35
Strákarnir okkar
Við eigum þrjá stráka sem við erum vægast sagt mjög stolt af. Þeir eru eins og aðrir strákar - eins og þeir eru með sínum kostum og göllum (þó fáir séu).
Hins vegar eigum við Íslendingar fullt af strákum sem við erum að rifna úr stolti yfir að eiga, eða í það minnsta við teljum okkur eiga eitthvað í þeim. Það fór ekki fram hjá neinun að handboltalandsliðið kom heim frá Peking í dag. Móttökuathöfnin í Rvk var flott í alla staði. Smart eins og Vala Matt myndi segja og stuðboltinn og Stuðmaðurinn Valgeir Guðjóns stóð fyllilega fyrir sínu eins og við var að búast.
Mér fannst reyndar ein manneskja á sviðinu ljóma umfram aðra og mér finnst að hún eigi að taka við af Ólafi Ragnari þegar hans tími er liðinn. Menntamálaráðherrrann (eða frúin), handboltakempan og hestakonan Þorgerður Katrín kann sko að koma fram og gerir það af röggsemi og án málalenginga. Hún virtist líka eiga helling í strákunum og faðmaði þá og kyssti laus við alla stífni og óþægilegheit sem virtist hrjá kynsystur hennar í ríkisstjórninni. Svei mér þá ef þessi kona er ekki af Keflvíkingum komin
Um bloggið
H4-260
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar