Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Gestagangur á Gili

Skemmtilegur dagur er senn á enda runninn. Eins og fram kom í fyrri færslu þá var blaðinu dreift á ljóshraða til að standa við þau skilyrði sem blaðberum eru sett. Svo tók við sund. 500 m steinlágu hjá okkur Bergi og svo var verið að taka á móti sonum og senda þá aftur í skólann í allan dag. Mikið um eyður hjá Fjölbrautungunum.

Frú Erna sem kennd er við Elías renndi suður með sjó í dag og skemmti okkur hjúum með sinni einstöku nánd og gleði. Alltaf gaman að vera í samneyti við skemmtilega vini eins og fjölskylduna þá. Mamma birtist og krafðist kaffisopa og var svo rokin med det samme til að hreinsa til á bæjarskrifstofunum. Eins og hvítur stormsveipur.

Oddgeir sjoppukarl kom svo eftir pizzuát kvöldsins og átti með okkur notalega stund. Synirnir eru ótrúlega vel stilltir inn á að aðlagast breyttum lífsháttum og leggja sig alla fram um að vera jákvæðir í hvívetna. Andri tók Berginn með sér í Sporthúsið og lét hann puða því eitthvað finnst honum Bergurinn vera væskilslegur miðað við aðra fjölskyldumeðlimi feitu fjölskyldunnar á H4.

Betra barn en Marhissa Kristín ehf. fyrirfinnst ekki, nema ef vera skyldu synir okkar. Hún er óðum að ná sér og skríða saman eftir kirtlatökuna og viljum við meina að það sé ekki síst okkur að þakka Wink í rólegheitum og umhyggju. Nóg af athygli og tíma til fyrir litlu skrudduna okkar sem okkur þykir svo ósköp vænt um.


Er þetta hægt

Er hægt að vera svo störfum hlaðinn af því að gera ekki neitt að maður vakni of seint til að bera út blaðið??? Nei, það á ekki að vera hægt Blush  Blaðið barst samt á nokkuð réttum tíma og aldrei hefur mannskapurinn verið jafn snöggur í snúningum.

Takk fyrir kvittin


Ný vika - ný verkefni.... eða þannig!!!

Vikan fór vel af stað með því að við slógum hraðamet í blaðaútburði. Allir fengu sín blöð á sínum tíma en það er ekki hægt að segja það sama um þann sem átti að bera út 24 Stundir hér í hverfinu Shocking

Morguninn var svo skrýtinn þegar drengirnir týndust í skólann og við gömlu bara ein heima. Við lögðum okkur bara aftur enda er verkefnafargið ekki að fara með okkur. Það hefur nefnilega tekið sig upp gömul leti sem erfitt er að hrinda á bak aftur.

Svo sótti IP Marhissu Kristínu ehf. og ætlum við að hafa hana í nokkra daga meðan hún er að jafna sig eftir hálskirtlatöku. Hvar ætti hún annars að vera? Við höfum allan heimsins tíma og hér vill hún vera. Ekki slæmur kokteill það Wink

Enn rignir og rignir. Ég var búinn að gleyma hvað það er oft rigning hér syðra og þegar ég arka með blöðin á morgnana og raula með sjálfum mér dettur mér í hug þegar ég var að bera út Vísi í gamla daga og Gústa Randrup taldi blöðin inni í bílnum og setti þau í töskurnar þar svo þau yrðu ekki rennblaut á SBK planinu.

Það væri gaman að þið sem enn komið hingað inn til að lesa mynduð kvitta á einhvern hátt svo maður viti hverjir eru þar á ferð.


Menningarveisla

Menningarröltið okkar reyndist vera hið skemmtilegasta. Við vorum passlega snemma á ferðinni til að njóta en höfðum okkur á brott þegar fjölga tók í bænum. Áttu skemmtilegan dag og ekki skemmdi vætan fyrir því við höfðum mjög gaman af því að hemja regnhlífarnar og leita skjóls.

Það atriði sem upp úr stendur er tónlistaratriði sem fór fram í innganginum í KB-banka í Austurstræti. Sennilega hefur atriðið átt að vera á sviðinu sem var fyrir utan bankann en spilararnir hafa vafalaust leitað inn vegna rigningarinnar. Alla vega þá voru þetta 6 karlar sem spiluðu á tvo gítara, mandólín, fiðlu, kontrabassa og fiðlu og sungu með. Bar kennsl á tvo þeirra, sem báðir heita Ólafur. Annar er Sigurðsson og kennir Andra í rafmagnsdeildinni í FS og hinn er Þórðarson og var í Ríó Tríóinu. Svo sannarlega snillingar þarna á ferð. Á eftir þeim tróð hinn frábæri Ingó án Veðurguðanna upp og það var ekki að því að spyrja að hann heillaði fólkið sem safnaðist saman fyrir framan sviðið hjá honum þrátt fyrir að næðingur væri í Austurstrætinu þá.

Drifum okkur svo heim áður en götufylleríið hófst, unglingadrykkjan fannst okkur of mikil síðast þegar við vorum að kvöldlagi þarna. Sennilega hefur vætan dregið úr vatnshræddum landanum að tygja sig í bæinn og njóta alls þess frábæra sem boðið var upp á.


Dauðakippirnir

Svei mér þá ef þetta blogg er ekki í dauðaslitrunum... langt á milli blogga... frá fáu að segja sem markvert er... tjáningarþörfin ræktuð annars staðar???

Alla vega þá erum við á leið á Menningarnótt sem sumir kalla Ómenningarnótt. Ætlum að njóta dagsins og láta bleyta aðeins í okkur utan frá.

Aldrei að vita nema að við kíkjum við einhversstaðar þar sem ekki er mannþröng.

Meðal ómerkilegra frétta þá bárum við út í tvö hverfi í morgun og fengum þann eina sem er í kjörþyngd í fjölskyldunni til hjálpar. Morgunstund gefur gull í mund stendur einhversstaðar. Alla vega er það þannig á H4 Wink


Morgunstund gefur gull í mund...

... eða Fréttablaðinu inn um lúguna hjá einhverjum.

Við rifum okkur á fætur í morgun kl. 5:45 til að taka á móti Fréttablaðinu og dreifa því í hverfinu. Þar sem þetta var fyrsti dagur Hjartar sem blaðburðardrengs áttum við von á að fá kerru, tösku og lýsingu. Ekkert af þessu barst heldur einungis 98 eintök af blaðinu. Nú tóku við hringingar og bið eftir því hvort ekki ætti að redda þessu í snatri. Nei, ó, nei. Pósthúsið sem dreifir Fréttablaðinu er eins og seinvirk ríkisstofnun því ekkert var hægt að gera nema fara á hnén og biðja okkur allra náðarsamlegast að koma blaðinu út, enda hefur það nánast ekkert borist í sumar. Við fylltum þrjár Bónus-töskur og örkuðum af stað. Dreifingin tók u.þ.b. 30 mín. og náði maður að svitna vel. Svo var bara að horfa á Ol 2008 og vafra um netið.

IP er komin með vinnu. Byrjar 1. sept. hjá Avis bílaleigu í skrifstofustarfi. Skólinn byrjar á morgun hjá Bergi Óla, á miðvikudag hjá Andra Má og á föstudag hjá Hirti Geir. Skólabyrjunarvikan mikla er hafin.


Borgarferð

Í dag fórum við í borgarferð. Tilefnið var að kíkja á Krúser-bíla-sýningu í Holtagörðum. Þar stóðu gljáfægðir gæðingar í röðum eigendum sínum til sóma. Þar var til sölu einn fallegasti bíllinn á sýningunni V 302 minnir mig sem er Ford Mustang árg. 1964 og 1/2 . Ég benti sonunum á að þetta væri góð og falleg gjöf handa mér en sennilega yrðu þeir að safna aðeins lengur fyrir henni.

Svo ókum við niður Laugaveginn og kíktum á mannlífið. Ansi var nú sorglegt að sjá alla ferðamennina sem eru búnir að kaupa rándýra ferð til landsins, lesa um allt frábæra mannlífið og hverina svo ekki sé talað um fallega fólkið á Íslandi. Þessir ferðamenn eigruðu um Laugaveginn þar sem allt var lokað og læst enda ekki til siðs þar að afgreiða þessa gesti á helgum dögum. Þetta þarf að breytast. Allt það kjaftæði um það að miðbæjarverslun fari hnignandi og að stóru kringlurnar séu að hirða þetta af kaupmönnum miðborgarinnar á sér eðlilegar skýringar að mínu mati. Ef við getum eða viljum ekki þjónusta kúnnana, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir, um helgar þá er eðlilegt að þeir leiti annað. Neðst á Laugaveginum og í Bankastræti voru stöku verslanir opnar fyrir náð og miskunn og mér sýndist að kaffihúsin og matsölustaðirnir væru vakandi, eða ekki farin að sofa. Sem áhugamaður um uppbyggingu ferðaþjónustu á landinu tel ég að allir þræðir verði að haldast í hendur og þróast saman. Það þýðir ekkert að fjölga flugferðum og bílaleigubílum ef við viljum bara þjónusta gestina okkar þegar okkur hentar. Núna þegar unga fólkið sem vinnur á ferðaþjónustustöðum landsbyggðarinnar heldur í skólann mun þjónustan skerðast enn og á ný.

Svei attan. Þetta er nefnilega sú auðlind sem við eigum eftir að græða hvað mest á í framtíðinni takist okkur að halda rétt á spöðunum.

Amen á eftir efninu.


Gamlir taktar

Það tóku sig upp gamlir taktar í dag þegar þrjár kynslóðir karla tókust á við að járna reiðhestinn hans Bergs. Fremstur í flokki var að sjáflsögðu aldursforsetinn afi Mundi sem mundaði hófjárnið og hamarinn af stakri snilld. Bergur var allt í öllu og lagði til við að halda framlöppunum. Sjálfur var ég handlangari og tók við að halda fótunum á klárnum þegar mér fannst sonurinn ekki gera þetta alveg rétt. Sem sagt skeifurnar fóru undir klárinn og við 3 feðgarnir fórum skeifnasprettinn. Bergur á Frá, Hjörtur á Skjóna og ég að sjálfsögðu á Gutta nýjárnuðum.
Svo var bara að skella sér í sameiginlegt grill stórfjölskyldunnar á Greniteignum og enn og aftur upphófst óhóflegt át.


Í annríki dagsins

Ja mikið helv... er þetta gáfulegur titill!!!
Annríkið er svo mikið að það er ekki neitt. Það sem helst brýtur upp daginn er að skreppa upp í hesthús að kíkja á klárana sem við komum með að norðan í fyrradag, finna til eitthvað að borða, skreppa í Bónus og hanga á netinu. Þetta er ekki hollt - svo mikið er víst. Sennilega myndi ég fremja sjálfsmorð ef þetta ástand yrði viðvarandi í lífi mínu. Ég er orðinn svo latur og ómögulegur að ég þarf að finna mér eitthvað að gera til að rífa mig upp úr þessu.
Annars segja nú sumir að þetta sé óttalegt væl því að við séum á fullu að stússast í einu og öðru. Sem dæmi má nefna að í vikunni fórum við norður að klára nokkur mál sem snúa að brotthvarfi okkar frá fyrirtækjunum okkar þar. Í sömu ferð tókum við hestana hans Bergs með okkur suður.
Svo fengum við góða vini frá Hvt. í mat í gær. Þar voru á ferð Family Sveinsson með Svamp Sveinsson í broddi fylkingar. Skemmtileg heimsókn og maturinn tókst prýðis vel. Sýndum þeim uppeldisstöðvar okkar hjónanna.
Í dag er IP að fara í eitt atvinnuviðtal í viðbót. Hún rúllar þessu upp og getur valið úr möguleikum til að vinna við. Ég hins vegar hef ekki fundið neitt við mitt hæfi nema að aðstoða Hjört við blaðaútburð. Koma tímar koma ráð segir máltækið hljómar í útvarpinu núna og sennilega eru það skilaboð til mín að láta af óþolinmæðinni og druslast út í Kef að synda og járna svo Guttann í dag. Það verður sennilega hópþerapý hjá okkur feðgum, Bergi og afa Munda og mér.

 


Húseiganda-puð

Það er ekki tekið út með sældinni að vera húseigandi. Að mörgu er að hyggja eins og sagt er. Við erum búin að vera með rassinn út í loftið úti í garði síðustu daga. IP er búin að reita allan heimsins arfa úr beðum garðsins og meira að segja ruðst inn á aðrar lóðir til að uppræta þennan fjanda. Svo er hún farin að stinga upp úr beði nokkru sem hún hyggst nýta til garðyrkju næsta sumar. Ekki orð um það meir. ÞG er búinn að bera á girðinguna sem snýr út að Borgarveginum... hóst, hóst, humm, humm. ÞG byrjaði og Bergur kláraði enda vantaði hann verkefni til að hafa ofan fyrir sjálfum sér. Svo erum við feðgar byrjaðir á stórverkefni. Útihurðin hefur í árdaga verið mjög flott og til eru sögur af því þegar Bína hans Gunna strauk hana alltaf á sunnudögum svo hún gljáði alla daga. Nú er öldin önnur og Árni Johnsen kominn aftur á þing. Fyrrverandi eigendur hafa alveg sleppt því að strjúka hurðinni á sunnudögum og nú er svo komið að hún, þessi flotta hurð, er orðin sprungin og ljót. Við þessu erum við feðgar að bregðast. Búnir að hitta Ella Heimis í Flügger búðinni og þiggja góð ráð hjá honum og björgunaraðgerðir eru hafnar. Byrjaðir að slípa og á morgun eða hinn verður gripið til stórvirkra ráða til að bjarga henni svo hún verði eins fín, ef ekki fínni, og hjá Bínu blessaðri.

Með morgninum á að bruna norður á RSK og ljúka nokkrum verkum áður en skólabúðir hefjast. Ef vel gengur og allt er í sóma á að taka hestana með suður svo hægt sé að sinna þeim héðan.

Ég hef í iðjuleysi mínu verið að lesa blogg hjá bláókunnugu fólki og hef undrast mikið hvað það er hispurslaust og yfírlýsingaglatt um einkahagi sína. Á sumum síðum er hægt að lesa um klósettferðir og hægðavandamál höfunda. Á öðrum um kynlíf og uppáferðir ásamt öðrum persónulegum athöfnum sem engan varðar um nema þá sjálfa. Það eru ekki miklar líkur á því að á þessu bloggi verði hægt að lesa um klósettferðir, kynlíf eða slíkt. Til þess er ég einfaldlega of mikil tepra eins og Erna sagði um árið Wink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

H4-260

Höfundur

H4-260
H4-260

Nú hefur fjölskyldan komið sér fyrir á H4 og þá notar fjölskyldufaðirinn tækifærið til að skrá skoðanir sínar á síðunni.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...img_102
  • img 075
  • laddi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband