Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Matarhelgin mikla

Dalvíkingar halda nú Fiskidaginn mikla með pompi og prakt og þvílíkur mannfjöldi sækir þá heim og skemmtir sér. Í útvarpinu í morgun heyrði ég að það þætti sjálfsagt á Dalvík þessa helgi að óboðnir sem og boðnir gestir fengju sér súpuskammt í húsum bæjarins. Einnig að það þætti alveg sjálfsagt að gestir hátíðarinnar bönkuðu upp á hjá íbúum bæjarins og fengju að nota klósettin hjá þeim. Sennilega er bara gott að búa í Njarðvík en ekki á Dalvík!!!

Annars höfum við nú haldið okkar hátíð hér á H4 um helgina. Hún nefnist Matarhátíðin mikla. Hátíðin hófst með því að hluti af mínu fólki kom hér í mat í gærkvöldi og tókst það bara bærilega. Svo í kvöld þá tilkynntu tengdóið að þau væru flúin að heiman eftir innrás unglingagengis sem hefði yfirtekið stofuna til að spila tölvuleiki. Þau voru að sjálfsögðu velkomin og aftur var slegið í grill að hætti hússins. Það tókst líka bara bærilega og tengdafaðirinn rumdi af ánægju með rabarbarapæið sem húsmóðirin útbjó sérstaklega handa honum. Annars hef ég svolítið gaman að rabarbaraáhuga frúarinnar minnar sem allt í einu hefur gert vart við sig. Í gegnum árin höfum við iðulega haft mikinn rabarbaragarð sem hefur allt í senn verið allt og stór og gjarnan ekki verið hirt nógu vel um að hirða afraksturinn. Nú bregður svo við að sennilega erum við bara með eðlilega stærð af rabarbaragarði hér á H4, en þá vill hún allt í einu miklu stærri garð með annari tegund af rabarbara og sennilega sitthvað fleira. Þannig að erfitt er að gera rabarbaraóðum húsmæðrum til hæfis.

Hátíðin heldur svo áfram á morgun því hver veit nema að það læði sér einhverjir velboðnir gestir í mat hjá okkur. Ég vil bara taka fram að það vorum við IP sem gengum inn á Fitjar og versluðum í Bónus og örkuðum svo aftur heim með innkaupin í plastpokum, en ekki einhverjir aumingjans útlendingar sem eiga engan bíl. Við fórum nefnilega í Fitjamaraþon í dag en ekki í Keflavíkurmaraþon. Ekki veitir af ef matarveislan heldur áfram. Af nógu er nefnilega að taka.


Einn góður af Keflvíkingum

Rakst á eftirfarandi sögu á vefsíðu þegar ég var að vafra rétt í þessu. Læt hana flakka hér:

 

Kona nokkur í Keflavík, sem býr rétt við fótboltavöllinn !

Kona ein, gömul var að ganga upp Hringbrautina með tvo troðfulla ruslapoka.

Lögreglumaður sem átti leið þarna hjá og tók eftir því að það var gat á öðrum pokanum og 5000 kr seðlar flugu úr pokanum endrum og eins.

Eitthvað fannst honum þetta dularfullt og gekk upp að konunni. ' Góðan daginn væna mín' sagði hann 'hefur þú tekið eftir því að það eru 5000 kr seðlar fjúkandi úr pokanum þínum ?'

Konan stoppar og lítur bak við sig og sér seðlana á víð og dreif um götuna 'Æ þakka þér fyrir væni minn' stundi í konunni 'Ég ætti nú að drífa mig í að taka þá upp'

En þegar hún ætlar að leggja af stað að týna upp seðlana stöðvar lögregluþjónninn hana 'Engan asa væna mín, hvernig stendur eiginlega á því að þú ert með fullan ruslapoka af fimm þúsund köllum? Varstu að ræna banka ?'

Gamla konan brosti. 'Nei það gerði ég nú ekki en það vill svo til að bak við garðinn minn er stór fótboltavöllur og alltaf þegar mikilvæg mót eru í gangi  koma oft ungir menn og míga í blómabeðin hjá mér svo ég tók upp á því að standa þarna með garðklippurnar og segja '5000 kr. eða ég klippi hann af'

'Jahá.. þetta er áhugaverð hugmynd' sagði lögregluþjóninn hugsi '..en hvað ertu með í hinum pokanum?'

'Það eru ekki allir sem borga...' LoL

Heima á ný

Mikið var nú gott að koma heim aftur og finna svalan andvarann leika um kroppinn eftir hitasvækjuna á Spáni. Það var reyndar full mikill munur svona fyrst þegar maður kom út úr flugstöðinni en það vandist fljótt.

Dvölin á Alicante reyndist líða of fljótt og áður en maður hafði snúið sér við var búið að pakka öllu niður og haldið heim. Við áttum góða og heita daga þarna á Gran Alacant eins og hverfið okkar hét. Við leigðum okkur bíla og villtumst, urðum bensínlaus, svitnuðum, fórum í Go Kart og Jet Ski og sólbrunnum á ströndinni (þ.e. ég og Bendt). Gaman að hafa tengdóið með og held ég að þau hafi bæði hvílst og skemmt sér í ferðinni og þá var tilganginum náð.

Við fengum góða vini í heimsókn í gær þegar LH-hópurinn okkar hittist hjá okkur. Það var mikið spjallað, hlegið og spjallað meira. Gott að finna að maður á góða vini sem vaka yfir vegferð okkar og vilja okkur aðeins allt það besta.

Dagarnir líða núna við að skoða atvinnuauglýsingar og uppvask (eða þannig sko). Við erum bæði að líta í kringum okkur að vinnu og myndum vilja að við gætum farið að finna réttu störfin fyrir okkur. Við erum nú reyndar langt frá því að vera farin að örvænta því við njótum frísins og erum dugleg við að gera sitthvað skemmtilegt. Ég fór t.d. nokkra bílasölurúnta í dag, fór í sund og með IP í búðir og svo fórum við í Keflavíkurmaraþonið, þ.e. í göngutúr á Kirkjuteiginn meðan piltarnir sáu Keflavík vinna HK 3:2 Smile

Það er orðið voða fínt hjá okkur og okkur líður mjög vel í húsinu okkar. Reyndar er ég að verða full óþreyjufullur eftir því að þeir bræður ÁÁ haldi áfram við hálfklárað verk og sendi menn til að vinna við múrverkið svo hægt sé að mála fyrir veturinn. Það er gott að vera kominn heim aftur þó svo að bærinn hafi tekið stakkaskiptum á þeim árum sem við vorum fjarri.


and here we go

Þá er tengdóið mætt og allt að verða kolvitlaust..... nei allt að verða tilbúið til brottfarar frá H4. Að sjálfsögðu mættu KLP og MK ehf með gömlu til að tryggja að þau færu örugglega úr landi. Það verður sennilega stanslaust partý í Fellsásnum á meðan Tounge

Stefnan er að slappa vel af, skemmta sér og forðast að sólbrenna. Vonum að frumburðurinn hugsi vel um húsið og sjálfan sig á meðan.

Góðar (sólar)stundir Cool


Alicante á laugardag

Eftir smá blogg hlé er réttast að skrifa eins og eina færslu áður en haldið er í enn eitt ferðalagið og nú er það Spánn sem ráðist verður á. Höldum til Alicante á föstudag ásamt tengdóinu í Mosó. Framundan eru væntanlega heitir dagar sem gætu reynst okkur ísbjörnunum erfiðir, en þá er bara til ráða að drekka nógu mikið og þá sérstaklega af öli (lesist bjór).

Við erum að verða búin að hreiðra um okkur svo að nokkur sómi er af. Enn bíða kassar óþreyjufullir eftir því að verða opnaðir og tæmdir en fyrst ætlar frúin að sauma nokkra tugi metra af gardínum á saumavélar-forngripinn á Kirkjuteignum. Einnig er í bígerð að mála eldhúsið þó svo að ekki sé búið að ganga frá í kringum nýju gluggana.

Svo sitjum við sveitt við að leita okkur að vinnu milli þess sem við syndum og örkum um nýjar slóðir í Reykjanesbæ því nýir lífshættir ógna lífi offitunnar og heilsuleysisins (vonandi). Von er á Marhissu Kristínu ehf. í heimsókn og gistingu því mamman er eitthvað að reyna að blása lífi í karlinn sinn. Von á góðu þar Wizard he, he.

 

 


Heja Húnaþing

Fyrsta nóttin okkar á Hvammstanga var bæði köld og vindasöm (kemur á óvart!). Engu að síður sváfum við bara eins og englar allt þar til IP þaut á braut, vestur í Rsk til að sinna bókhaldi. Við feðgar vorum bara latir og lögðum okkur aftur og aftur. Svo var farið að undirbúa grill hádegisins því við áttum von á gestum til okkar. Mr. Sveinsson og co. heilsuðu upp á okkur og það var að sjálfsögðu bara gaman. Sérstaklega hjá Bergi og Jónínu LoL

Keyrðum svo strákana til vinnu og hittum þar okkar góðu vini Beverly og Einar sem voru á leið til Akureyrar og í sama mund bar að Möggu og Bjössa sem voru með okkur Andra á Silverstone.

Núna erum við að skrifstofast á Rsk. en höldum senn út í sólina og norðanáttina og komum okkur vel fyrir við fellihýsið þar sem er víst von á helling af fólki af Eyrarættinni.

Góðar stundir.


Útilega - Hvammstangi

Ótrúlegt en satt!!! Við erum að fara í útilegu í fellihýsið og ætlum að halda til á Hvammstanga. Við höfum oft rætt um það hversu tjaldstæðið sé flott þar, en það er nú ekki af þeim sökum sem við ætlum að tjalda þar. Yngri deildin er að fara á síðustu vaktatörnina sína í elsta vegaskála landsins og við ætlum að vera í nágrenninu og þar sem við erum eiginlega bara vegbúar þarna nyrðra núna þá ætlum við að slá upp tjaldi í höfuðstað Húnaþings vestra og keyra strákana til og frá vinnu. Við ætlum líka að ganga frá nokkrum málum og kannski heimsækja/kveðja nokkra vel valda kunningja (vini!!!).

Það er vel við hæfi að bruna af bæ því loksins erum við (lesist Ingunn) búin að koma okkur fyrir og ekkert eftir nema bílskúrinn.

Annars hafa síðustu dagar verið mjög góðir og við búin að vera duglega að breyta til og hreyfa okkur.

Góða (Hvammstanga) helgi


Dýr dýrtíð

Í dag skrapp fjölskyldan í The Blue Lagoon. Mikil eftirvænting lá í loftinu á leiðinni enda er þetta fyrsta ferð fjölskyldunnar í þetta merkilega lón.

Það skal engan undra að Íslendingar fari bara einstöku sinnum í þetta eftirsótta túristabað því það kostar u.þ.b. 10x meira að fara í lónið en í sund. Fullorðinsgjald er kr. 2.300 og fyrir unglingana kostaði 1.200.  Engu að síður var þetta alveg meiriháttar og við létum dýrtíðina ekki skemma fyrir okkur skemmtunina.

Þegar okkur fannst að nú væru allir að verða nógu útvatnaðir og krumpaðir skundaði að hópur skáeygðra Asíubúa sem áttu mörg skrítin orð til að lýsa undrun sinni. Okkur fannst nú nóg um þegar þrír þeirra skelltu sér út í í nærbuxum í stað sundskýlna og fyndnastur fannst okkur einn sem tók myndir í gríð og erg, en hann var í hvítum boxer-buxum. Þegar hann fór svo upp úr skein í gegn rauðar venjulegar naríur, sem hann hefur sennilega verið búinn að vera í allan daginn Blush

Enough is enough og við fórum upp úr.


Rigning, rigning, rigning

Eitt virðist alveg víst hér suður frá. Það rignir jafnt yfir réttláta sem rangláta.

Í öllum okkar flutningsferðum og eftir að við fluttum alfarið þá rignir duglega daglega eða daglega duglega. Sennilega eru himnafeðurnir að tjá tilfinningar sínar. Rétt í þessu þegar ég byrjaði að skrifa þetta rigningarvæl þá fór sólin að skína í smá uppstyttu.

Eigið góðan dag.

 


Fyrir fullt og allt

erum við flutt á H4. Tilfinningarnar hafa verið að bera okkur ofurliði sl. daga. Þetta hefur bæði verið erfitt og gleðilegt í senn. Erfitt að kveðja heimahaga sem hafa fóstrað okkur vel sl. 18 ár og gleðilegt að vera að skapa sér nýja framtíð á nýjum, en um leið kunnuglegum, slóðum.

Það var hvorki kveðjuathöfn á Rsk. né formleg móttökuathöfn hér syðra við lokasprett flutninganna. Þetta var eins og þegar jarðað er í kyrrþey !!!  Hins vegar streymdu góðir gestir og vinir að og léttu okkur þessar stundir þegar við vorum mætt á H4. Við vorum svo drifin í bíó, meira segja í Nýja bíó í Kef, til að sjá Mama Mia og þvílík skemmtun. Stína og Marhissa, þessar hjálpfúsu og elskulegu mæðgur, mættu að sjálfsögðu til að sjá til þess að eitthvað myndi fara upp úr kössum og veita okkur félagsskap. Það er enginn svikinn af því að eiga slíka í sínum ranni.

Ásgeir hamast sem mest hann má við að rífa úr glugga með tilheyrandi brambolti og látum, en við látum okkur fátt um finnast því það er svo gott að hafa þann góða dreng í nánd við sig. Húsið verður líka svo miklu flottara þegar búið verður að skipta um glugga, klára utanhússviðgerðirnar og mála. Að ég tali nú ekki um viðbygginguna sem er í skoðun. Meira um það síðar.

Planið er að vera dugleg við að koma okkur fyrir í dag og skella okkur í matarboð á Gónhólinn í kvöld, það verður pottþétt skemmtun í lagi. Svo á að nálgast litlu peyjana annað kvöld þegar þá ber að með kveldrútu Trex. Þeir eru að vinna þessar elskur. Ekkert smá duglegir þó svo að vikan hafi líka verið erfið tilfinningalega fyrir þá.

Núna er IP komin úr búðinni og þá er rétt að hlunkast að verki og láta hendur standa fram úr ermum. Sem betur fer er ég í stuttermabol Wink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

H4-260

Höfundur

H4-260
H4-260

Nú hefur fjölskyldan komið sér fyrir á H4 og þá notar fjölskyldufaðirinn tækifærið til að skrá skoðanir sínar á síðunni.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...img_102
  • img 075
  • laddi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband